Enski boltinn

Nasri ætlar ekki að taka í hönd Gallas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samir Nasri, leikmaður Arsenal, er samur við sig og ætlar ekki að taka í hönd William Gallas, varnarmann Tottenham, fyrir leik liðanna í kvöld.

Nasri sniðgekk Gallas þegar þessi lið mættust fyrr á tímabilinu og segir hann að ekkert hafi breyst síðan.

Málið á sér langa forsögu en þeim Nasri og Gallas lentu saman þegar þeir voru saman í franska landsliðinu árið 2008. Þeim lenti saman í rútu liðsins og Gallas gagnrýndi Nasri í ævisögu sinni stuttu síðar.

Þeir Nasri og Gallas voru samherjar hjá Arsenal en ræddust aldrei við þar. Gallas gekk svo í raðir Tottenham í sumar.

„Ég mun ekki heilsa honum næst heldur,“ sagði Nasri við enska fjölmiðla. „Ég er gjafmildur og góður þegar kemur að fjölskyldu minni og vinum en ég get líka verið nokkuð illgjarn. Varnarmenn sem eru duglegir að sparka mig niður vita það vel.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×