Innlent

Fjögurra stiga hiti á sumardaginn fyrsta

Fjögurra stiga hiti er í höfuðborginni á þessum fyrsta degi sumars og fer hlýnandi.

Lítið fer fyrir formlegum hátíðarhöldum í Reykjavík í tilefni af sumardeginum fyrsta ef marka má heimasíðu borgarinnar. Þó er blásið til skemmtunar í Bústaðahverfi með pylsuveislu á hádegi og skrúðgöngu sem leggur af stað klukkan eitt.

Skíðavika er nú haldin á Ísafirði og Hlíðarfjall á Akureyri er opið. Fyrir spræka höfuðborgarbúa má benda á að núna klukkan hálfellefu ætlar hópur manna að hlaupa, skauta og hjóla frá Gljúfrasteini í Mosfellsdal út að Gróttu á Seltjarnarnesi.

Er þetta í sjötta sinn sem ráðist er í slíka ferð á sumardaginn fyrsta. Leiðin er tæplega 40 kílómetrar um góðan malbikaðan veg. Víðavangshlaup ÍR verður þreytt í dag og hlaupið verður frá ráðhúsinu klukkan tólf. Afmælishlaup Víkings verður einnig í dag.

Hlaupið verður ræst klukkan hálftvö á horni Túngötu og Garðastrætis og hlaupið verður að félagsheimilinu Víkinni í Fossvogi.

Í Hallgrímskirkju klukkan fimm hefst Söngvahátíð barnanna þar sem fram koma fjórir stúlknakórar af höfuðborgarsvæðinu.

Þess má geta að vetur og sumar frusu ekki saman á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Ósagt skal látið hvað það segir fyrir um tíðina í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×