Innlent

Sakar seðlabankann um hræðsluáróður

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Formaður Framsóknarflokksins segir hræðsluáróður Seðlabankans eftir Icesave atkvæðagreiðsluna vera regin hneyksli. Matsfyrirtækið Moody's ákvað í gær að halda lánshæfismati Íslands óbreyttu þrátt fyrir höfnun Icesave samninganna.

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave hafði Moody's gefið út að lánshæfismat Íslands gæti lækkað ef Íslendingar höfnuðu samningnum. Því hefur niðurstöðu fyrirtækisins verið beðið í ofvæni.

Í mati Moodys segir að þrátt fyrir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sé útlit fyrir að hlutagreiðslur úr þrotabúi gamla Landsbankans hefjist senn og eignir þrotabúsins virðist vera verðmætari en áður var talið. Ekki er líklegt að höfnunin hafi áhrif á áætlun stjórnvalda og AGS þó fimmta endurskoðunin tefjist eitthvað.

Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsosn, segir ákvörðun Moody's eðlilega en matsfyrirtækin vera komin langt aftur úr öðrum mælikvörðum svo sem skuldatryggingaálagi. Hann segir skrítið að ráðherrar hafi ekki verið farnir að útskýra málin fyrir matsfyrirtækjunum löngu fyrir atkvæðagreiðsluna.

,,Það virðist vera eins og þeir hafi haldið að Íslendingar ætluðu bara að hirða alla peningana sjálfir og svo ættu þeir á hættu að tapa þeim öllum aftur og meira til í dómsmáli, það var ekki búið að útskýra fyrir þeim staðreyndir málsins, sem er alveg óskiljanlegt" segir Sigmundur.

Ráðherrarnir séu þó loksins farnir að útskýra raunverulega stöðu málsins annað en Seðlabankinn sem haldi áfram hræðsluáróðri.

,,Vegna þess að hann er í stöðu til að hafa áhrif á markaðinn með orðum sínum, þannig að þegar seðlabankinn segir að þetta geti þýtt stöðnun og fall krónunnar og svo framvegis þá leiðir það jafnvel til þeirra áhrifa."

Hann segir málflutning Seðlabankans vera regin hneyksli.

,,Það er nánast eins og seðlabankinn sé að reyna að láta hrakspár sínar rætast, það er alveg óskiljanlegt að þeir tali með þessum hætti" segir Sigmundur að lokum," segir Sigmundur Davíð að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×