Enski boltinn

Alfreð og félagar töpuðu fyrir Anderlecht

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Finnbogason í leik með Breiðabliki.
Alfreð Finnbogason í leik með Breiðabliki.
Lokeren tapaði í dag, 2-1, fyrir Anderlecht í belgísku úrvalsdeildinni í dag. Alfreð Finnbogason kom inn á sem varamaður á 36. mínútu og lék til leiksloka.

Leikurinn var í sérstökum meistarariðli þar sem að sex bestu lið deildarinnar keppa um titilinn. Genk er þar í efsta sæti með 41 stig en Lokeren í því sjötta með 27. Anderlecht komst upp í 40 stig með sigrinum.

Íslenskir knattspyrnumenn voru víða í eldlínunni í dag.

Jónas Guðni Sævarsson lék allan leikinn fyrir Halmstad sem gerði 1-1 jafntefli við Trelleborg í sænsku úrvalsdeildinni.

Halmstad er enn án sigurs í deildinni en liðið er með tvö stig eftir fimm leiki. Íslendingaliðið IFK Gautaborg er stigalaust á botninum eftir fjóra leiki.

Í sænsku B-deildinni missti Öster, lið Davíðs Þórs Viðarssonar, af tækifæri til að koma sér á topp deildarinnar er liðið gerði markalaust jafntefli við Assyriska.

Öster er með fimm stig eftir þrjá leiki en Degerfors á toppnum með sjö. Davíð Þór lék allan leikinn.

Guðlaugur Victor Pálsson var í byrjunarliði Hibernian sem gerði 1-1 jafntefli við St. Mirren á heimavelli í skosku úrvalsdeildinni í dag.

Guðlaugi var skipt af velli á 55. mínútu en lið hans er í áttunda sæti deildarinnar með 37 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×