Innlent

Fór konuvillt á Lundanum - aðsúgur gerður að lögreglu við Prófastinn

MYND/Óskar P. Friðriksson
Lögreglan í Vestmannaeyjum hafði í nógu að snúast í vikunni sem leið enda páskahelgin oft erilsöm. Í tilkynningu frá lögreglu segir að töluverður fjöldi fólks hafi skemmt sér á öldurhúsum bæjarins og fór nokkur tími lögreglunnar í að sinna fólki sem ekki gat bjargað sér sökum ölvunar.

„Ein líkamsárás var kærð til lögreglu eftir skemmtanahald páskahátíðarinnar en hún átti sér stað á veitingastaðnum Lundanum aðfaranótt annars í páskum,“ segir lögreglan en þar hafði karlmaður slegið konu þannig að hún fékk sár á enni, auk þess sem hann reif í hár hennar. „Ekki liggur fyrir ástæða árásarinnar en flest bendir til þess að maðurinn hafi farið konuvillt,“ segir í tilkynningunni. Málið er í rannsókn.

Aðfararnótt 21. apríl var gerður aðsúgur að lögreglumönnum sem voru að sinna skyldustörfum við veitingastaðinn Prófastinn. „Þarna hafði lögreglan haft afskipti af ungum manni og ætluðu félagar hans að frelsa hann frá lögreglunni. Þurfti lögregla að beita piparúða og kylfum til að róa ástandið,“ segir ennfremur en sömu nótt voru þrír menn handteknir vegna gruns um að þeir hafi átt þátt í að skemma stafi á Tryggingamiðstöðinni.

„Við yfirheyrslu hjá lögreglu höfnuðu þeir alfarið að hafa átt þátt í þessum skemmdum og var þeim sleppt í framhaldi af skýrslutöku.  Óskar lögreglan eftir upplýsingum um þann eða þá sem olli þessum skemmdum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×