Enski boltinn

Eiður lagði upp mark og spilaði vel í öruggum sigri Fulham á Bolton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Grétar Rafn Steinsson horfa á eftir boltanum í fyrsta markinu.
Eiður Smári Guðjohnsen og Grétar Rafn Steinsson horfa á eftir boltanum í fyrsta markinu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen átti flottan leik með Fulham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið vann 3-0 heimasigur á Grétari Rafni Steinssyni og félögum í Bolton. Eiður fékk tvö frábær færi til að skora í fyrri hálfleik og lagði síðan upp annað mark Fulham í upphafi seinni hálfleiks.

Eiður Smári hefur verið í byrjunarliði Fulham í síðustu tveimur leikjum og hefur staðið sig vel í þeim báðum. Eiður Smári spilaði fyrstu 68 mínúturnar í 1-1 jafntefli á móti Úlfunum um helgina og var þá líka nokkrum sinnum nálægt því að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Eiður Smári fékk hálfgerða heiðursskiptingu á 84. mínútu en það hafði reyndað dregið aðeins af honum eftir frábæran fyrri hálfleik. Það samt alltaf mikið að gerast í kringum Eið Smára í leiknum.

Grétar Rafn Steinsson meiddist hinsvegar á hné í seinni hálfleik og þurfti að fara meiddur af velli á 67. mínútu. Grétar Rafn virtist fá yfirfettu á hnéð og gæti verið eitthvað frá í framhaldinu.

Eiður Smári fékk algjört dauðafæri strax á 4. mínútu en hitti þá ekki boltann fyrir fram opið mark og það leyndi sér ekki svekkelsi hans í kjölfarið.

Clint Dempsey kom Fulham yfir með glæsilegu viðstöðulausu skoti eftir sendingu Chris Baird í kjölfarið á því að Bolton mistóks að bægja frá hornspyrnu á 15. mínútu.

Eiður Smári var allt í öllu á upphafsmínútum og fékk sitt annað dauðafæri á 24. mínútu þegar hann slapp í gegn eftir frábært hlaup og langa sendingu frá Chris Baird. Eiður lyfti boltanum framhjá Jussi Jääskelainen sem náði aðeins að koma við boltann sem endaði í stönginni.

Grétar Rafn vildi líka minna á sig en Mark Schwarzer varði frá honum ágætis langskot á 30. mínútu.

Eiður Smári átti mikinn þátt í öðru marki Fulham sem Bandaríkjamaðurinn Clint Dempsey skoraði á 48. mínútu. Eiður plataði þá vörn Bolton með laglegri hælspyrnu eftir stutta hornspyrnu og boltinn fór til Dempsey sem kom boltanum yfir línuna.

Norðmaðurinn Brede Hangeland skoraði þriðja markið með skalla á 65. mínútu eftir aukaspyrnu frá Danny Murphy.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×