Enski boltinn

Rio Ferdinand: Engir fýlupúkar hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ferdinand fagnar öðru marka Manchester United á móti Chelsea í vikunni.
Rio Ferdinand fagnar öðru marka Manchester United á móti Chelsea í vikunni. Mynd/AP
Rio Ferdinand skaut létt á vandamálin í herbúðum Manchester City í viðtali við Guardian í aðdraganda undanúrslitaleiks Manchester-liðanna í enska bikarnum á laugardaginn. Það hefur gengið hjá ýmsu hjá Roberto Mancini, stjóra City-liðsins, að reyna að halda sínum leikmönnum ánægðum og einbeittum.

Ferdinand segir að samheldnin innan liðsins undir stjórn Sir Alex Ferguson komi í veg fyrir hegðun eins og þá hjá James Milner þegar honum var skipt útaf á móti Liverpool á dögunum.

„Þið sjáið engan af okkar leikmönnum komandi önugan af velli, hristandi hausinn eða sitjandi í greinilegri fýlu á varamannabekknum. Það eru engir fýlupúkar hjá Manchester United því hér eru allir ánægðir að fá að spila fyrir þetta félag. Það er líka öruggt að um leið og einhver sínir svona hegðun þá er stjórinn fljótur að taka á því," sagði Rio Ferdinand.

„Aðalástæðan fyrir þessu er sú virðing sem menn bera fyrir stjóranum, fyrir félaginu og fyrir þeim sem spiluðu hér á undan þér," sagði Rio og bætti við: „Þetta er óskrifuð regla hjá félaginu. Þetta sést vel í búningsklefanum fyrir leiki því þar eru engar klíkur. Menn eru að óska hverjum öðrum góðs gengis fyrir leikinn og skiptir þar engu hvort viðkomandi leikmaður sé að spila í þinni stöðu. Svona er þetta bara hjá okkur," sagði Ferdinand.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×