Enski boltinn

Wenger setur Englendingum úrslitakosti vegna Wilshere

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að ef Jack Wilshere spili með enska U-21 landsliðinu í úrslitakeppni EM í sumar muni hann líklega missa af tveimur leikjum enska A-landsliðsins í haust.

Mikið hefur verið fjallað um hvort að Wilshere eigi að spila með enska U-21 landsliðinu í Danmörku í sumar. Stuart Pearce, landsliðsþjálfari, vill fá hann en Wenger er því mótfallinn að hann spili.

Wilshere hefur spilað mikið á leiktíðinni, ekki síst þar sem að Fabio Capelli, þjálfari A-landsliðs Englands, ákvað að velja hann í sinn hóp í vetur. Wilshere hefur næstum spilað 50 leiki á tímabilinu og Wenger segir mikilvægt að hann fái sína hvíld í sumar.

„Það væri betra ef hann myndi ekki spila í sumar. Við munum sætta okkur við þá ákvörðun sem enska knattspyrnusambandið tekur en það má heldur ekki gleyma því hve snemma tímabilið byrjar hér á Englandi.“

„Enska landsliðið á vináttulandsleik í ágúst og svo leik í undankeppni EM 2012 í september. Ef U-21 liðið fer alla leið í Danmörku þarf leikmaðurinn að fá 4-6 vikna frí í sumar.“

„Það þýðir að hann muni missa af fyrstu vikum tímabilsins, landsleiknum í ágúst og í september líka því þá verður hann ekki kominn í leikform.“

„Enska knattspyrnusambandið þarf því að velja,“ sagði Wenger og ítrekaði hversu mikilvægt það væri fyrir leikmenn að hvílast vel yfir sumartímann. Sem dæmi nefndi hann Ryan Giggs, hinn 37 ára gamla leikmann Manchester United.

„Ryan Giggs er enn að spila en hann hefur aldrei spilað á stórmóti í knattspyrnu. Það þýðir að hann hefur alltaf fengið góða hvíld yfir sumarið.“

„Til lengri tíma litið tel ég að það hafi sitt að segja fyrir leikmenn að taka þátt í þessum stórmótum. Það er hart barist í hverjum einasta leik í ensku úrvalsdeildinni og því þarf að íhuga vandlega hvernig sé best að hvíla hvern einasta leikmann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×