Enski boltinn

Chelsea er enn með í baráttunni eftir 3-1 sigur - spenna á botninum

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Chelsea er enn með í baráttunni um enska meistaratitilinn eftir 3-1 sigur liðsins gegn WBA á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag. Öll mörk leiksins voru skoruð í fyrri hálfleik og er Chelsea með 61 stig í þriðja sæti deildarinnar en Arsenal er þar fyrir ofan með 62 en liðið á leik til góða á morgun gegn Liverpool. Manchester United er efst með 69 stig. Baráttan á botni deildarinnar harðnar enn og Blackpool, West Ham og Wolves sitja nú í þremur neðstu sætum deildarinnar.

Fylgst var með gangi mála í öllum leikjum dagsins á boltavakt Fréttablaðsins og visir.is.

WBA - Chelsea 1-3

Peter Odemwingie skoraði fyrsta mark leiksins fyrir heimamenn eftir varnarmistök hjá Chelsea þar sem að John Terry leit ekki of vel út. Didier Drogba, sem var í byrjunarliði Chelsea á ný, þakkaði traustið og jafnaði metin á 21. mínútu. Fjórum mínútum síðar kom Salomon Kalou meistaraliði s.l. árs yfir og Frank Lampard bætti við þriðja markinu rétt undir lok fyrri hálfleiks. Þar við sat og Fernando Torres lék síðustu 10 mínúturnar í liði Chelsea - hann skoraði reyndar mark sem var dæmt af vegna rangstöðu.

West Ham - Aston Villa 1-2

Gabriel Agbonlahor var hetja Aston Villa sem lagði West Ham á útivelli 2-1. Agbonlahor skoraði sigurmarkið á 90. mínútu en heimamenn komust yfir í leiknum strax á 1. mínútu þegar Robbie Keane skoraði. Darren Bent jafnaði metin fyrir Villa á 36. mínútu. Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Aston Villa sem hafði sogast niður í fallbaráttuna á undanförnum vikum. Liðið er með 40 stig núna og situr í 9. sæti. West Ham er í næst neðsta sæti með 32 stig og útlitið er dökkt hjá félaginu.

Blackpool - Wigan 1-3

Wigan vann gríðarlega mikilvægann sigur gegn Blackpool á útivelli. Með sigrinum þokaði Wigan sér úr fallsætinu. Hugo Rodallega kom gestunum yfir strax á 2. mínútu. Charles N'Zogbia bætti við öðru marki rétt undir lok fyrri hálfleiks. Neal Eardley skoraði sjálfsmark á 66. mínútu fyrir Blackpool og DJ Campbell skoraði eina mark heimamanna á 83. mínútu. Blackpool er með 33 stig í þriðja neðsta sæti en Wigan er með 34 í fjórða neðsta sæti.

Birmingham - Sunderland 2-0



Sænski landsliðsmaðurinn Sebastian Larsson kom heimamönnum yfir á 40. mínútu og Craig Gardner bætti við marki á 65. mínútu. Með sigrinum náði Birmingham 38 stigum líkt og Sunderland. Þessi lið eru því alls ekki laus við falldrauginn því Wigan er í fjórða neðsta sæti með 34 stig.

Everton - Blackburn 2-0

Everton vann góðan 2-0 sigur gegn Blackburn sem er í bullandi fallbaráttu. Everton náði með sigrinum í dag að komast í 47 stig og er liðið aðeins einu stigi á eftir Liverpool. Leon Osman náði að brjóta vörn Blackburn niður á 65. mínútu og Leighton Baines bætti við marki korteri fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×