Enski boltinn

Stoke flaug í úrslitaleikinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson er hér í baráttunni gegn Matthew Etherington á Wembley í dag.
Grétar Rafn Steinsson er hér í baráttunni gegn Matthew Etherington á Wembley í dag. Nordic Photos/Getty Images
Stoke fór auðveldlega í úrslit enska bikarsins en þeir gerðu sér lítið fyrir og rótburstuðu Bolton 5-0 í undanúrslitunum á Wembley í dag.

Leikmenn Bolton mættu hreinlega ekki til leiks og voru hreint út sagt skelfilegir í dag. Varnarleikur liðsins var ekki til eftirbreytni og Stoke fór því verðskuldað í úrslitaleikinn, en þar mæta þeir Manchester City.

Matthew Etherington, Robert Huth og Kenwyne Jones skoruðu sitt markið hver en Jonathan Walters gerði síðustu tvö mörk leiksins.

Grétar Rafn Steinsson var í byrjunarliði Bolton sem hafði ekki leikið til úrslita í ensku bikarkeppninni frá árinu 1958 þegar liðið lagði Man Utd 2-0 og það átti ekki eftir að breytast í dag.

Stoke hafði þrívegis áður leikið í undanúrslitum en liðið hefur aldrei komist í úrslit fyrr en í dag.



93.mín: Stoke er komið í úrslitaleik enska bikarsins og mæta þar Manchester City. Alveg frá fyrstu mínútu var augljóst í hvert stefndi. Bolton menn áttu sennilega sinn allra versta leik á tímabilinu.





81.mín: MARK – 5-0 - Þetta ætlar engan enda að taka. Jonathan Walters skorar hér fimmta mark Stoke, en það er hreinlega verið að niðurlægja Bolton í dag. Kenwyne Jones óð upp hægri kantinn, átti fína fyrirgjöf sem rataði á Walters sem skaut boltanum laglega í mark Bolton. Varnarmenn Bolton hafa hreinalega verið eins og keilur í leiknum og ekki gert nokkuð skapaðan hlut.



67.mín: MARK – 4-0 – Martröð Bolton heldur áfram en Stoke var rétt í þessu að skora sitt fjórða mark í leiknum. Jonathan Walters, leikmaður Stoke, dansaði framhjá varnarmönnum Bolton og skoraði með föstu skoti fyrir utan vítateig. Jussi Jaaskelainen hefði getað gert betur í markinu, en það er ekkert með Bolton í dag.



45.mín: Leikmenn Bolton eru sennilega fegnir því að vera komnir inn í búningsklefa, en leikur þeirra hefur verið hreint út sagt skelfilegur. 3-0 í hálfleik og ekkert bendir til þess að Bolton eigi einhver svör.



28.mín: MARK 3-0 – Það er verið að slátra Bolton á Wembley í dag. Eftir aðeins hálftíma leik er staðan orðin 3-0 fyrir þá rauðu. Jermaine Pennant óð upp hægri kantinn alveg óáreittur, sendi boltann inn fyrir vörn Bolton á Kenwyne Jones sem stýrði boltanum framhjá Jaaskelainen í markinu. Vörn Bolton er hreinlega í molum.

17.mín: MARK 2-0 – Frábær byrjun hjá Stoke en þeir eru komnir í 2-0 eftir aðeins 17 mínútna leik. Enn og aftur er vandræðagangur í vörn Bolton. Boltinn barst til Robert Huth eftir skelfilega tilraun varnamanns Bolton til að hreinsa boltann frá hættusvæði og Huth þrumaði boltanum í netið af svipuðum stað og Matthew Etherington gerði í fyrra markinu. Róðurinn verður erfiður fyrir Bolton eftir svona byrjun.

11. mín : MARK 1-0 - Stoke byrjar leikinn heldur betur vel en Matthew Etherington skoraði virkilega glæsilegt mark með skoti rétt fyrir utan vítateig.

Mikill darraðardans var í vörn Bolton sem endaði með því að liðið missti boltann frá sér á stórhættulegum stað sem Etherington náði að nýta sér og skaut boltanum óverjandi framhjá Jussi Jaaskelainen í marki Bolton.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×