Enski boltinn

Bent vorkennir Sunderland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Darren Bent í leik með Aston Villa.
Darren Bent í leik með Aston Villa. Nordic Photos / Getty Images
Darren Bent er leiður yfir því hversu illa Sunderland hefur gengið síðan hann var seldur frá félaginu í janúar síðastliðnum.

Sunderland hefur tapað átta af síðustu tíu leikjum sínum, nú síðast fyrir Birmingham um helgina, 2-0. Liðið er sem stendur í fimmtánda sæti deildarinnar með 38 stig - fimm stigum frá fallsæti.

Bent hefur hins vegar fundið sig vel hjá sínu nýja félagi, Aston Villa, og skorað sex mörk í ellefu leikjum síðan hann kom til félagsins. Hann var aftur á skotskónum er Villa vann 2-1 sigur á West Ham um helgina.

„Þetta er auðvitað leiðinlegt,“ sagði Bent við enska fjölmiðla. „Ég upplifði margt skemmtilegt hjá Sunderland og hef engan áhuga á því að fylgjast með liðinu ganga svo illa. Ég vona að þeir nái að snúa genginu sér í hag.“

„En ég einbeiti mér vitaskuld að því fyrst og fremst að standa mér vel hjá Villa. Þar hefur mér gengið mjög vel. Ég fæ að spila meira með landsliðinu og er að skora mörk með Villa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×