Enski boltinn

Man. Utd skoraði fjögur mörk á 19 mínútum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Wayne Rooney skoraði þrennu á 14 mínútum og sá til þess að Man. Utd vann lygilegan sigur, 2-4, á West Ham í dag. Man. Utd gat ekkert í 65 mínútur en lokakaflinn þar sem liðið skoraði fjögur mörk á 19 mínútum verður lengi í minnum hafður. United er komið með átta stiga forskot á toppi deildarinnar en Arsenal getur minnað þann mun síðar í dag.

West Ham komst yfir strax á 10. mínútu leiksins. Carlton Cole sparkaði þá boltanum í hendina á Patrice Evra og vítaspyrna réttilega dæmd. Úr henni skoraði Mark Noble örugglega.

Aðeins fimmtán mínútum síðar var dæmd önnur vítaspyrna á United. Nemanja Vidic felldi þá Cole. Áhöld voru um hvort brotið hefði átt sér stað innan eða utan teigs en vítaspyrna var dæmd.

Aftur steig Noble á punktinn og hann skoraði af fádæma öryggi. 2-0 eftir 25 mínútur og leikmenn Man. Utd hreinlega ekki mættir til leiks og spilamennskan afar slök.

Það var fátt sem benti til þess að Man. Utd myndi fá nokkuð úr leiknum þegar Wayne Rooney skoraði frábært mark beint úr aukaspyrnu á 65. mínútu. Rooney nákvæmlega ekkert getað í leiknum en þessi spyrna var stórkostleg.

Við markið kom kraftur í gestina og þeir hófu að sækja að marki West Ham af miklum krafti. Sá sóknarþungi bar árangur aðeins sjö mínútum síðar þegar Rooney jafnaði leikinn með laglegu skoti í teignum.

Gestirnir létu ekki þar við sitja því þeir fengu vítaspyrnu tólf mínútum fyrir leikslok. Fabio skaut þá boltanum í hönd varnarmanns West Ham og víti dæmt. Rooney mætti á punktinn og fullkomnaði þrennuna með öruggri spyrnu.

United fékk dauðafæri á næstu mínútum til þess að klára leikinn en Gibson fór illa með gott færi. Það kom þó ekki að sök því Javier Hernandez kláraði dæmið sjö mínútum fyrir leikslok.

Giggs átti sendingu sem fór í gegnyum klofið á tveimur varnarmönnum West Ham og það var hægðarleikur fyrir Hernandez að skila boltanum í netið.

Fjögur mörk á aðeins 19 mínútum. Ótrúleg frammistaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×