Enski boltinn

Hodgson kom fram hefndum gegn Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Liverpool missti niður 1-0 forystu gegn West Brom og tapaði eftir að hafa fengið á sig tvö mörk úr vítaspyrnum á lokakafla leiksins. Alls er sex leikjum nýlokið í ensku úrvalsdeildinni.

Roy Hodgson er stjóri West Brom en hann var rekinn frá Liverpool í janúar síðastliðnum. Hann var svo ráðinn til West Brom til að bjarga liðinu frá falli og hefur liðið ekki enn tapað í sex leikjum undir hans stjórn. Liðið er nú í tólfta sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom varnarmaðurinn Martin Skrtel Liverpool yfir með skallamarki eftir hornspyrnu.

Chris Brunt jafnaði svo metin úr víti sem var dæmt eftir að Sytrios Kyrgiakos braut á Peter Odemwingie í vítateig Liverpool.

Markið kom á 62. mínútu en þremur mínútum fyrir leikslok var Odemwingie svo aftur á ferðinni. Hann lék á Kyrgiakos og var kominn einn gegn Pepe Reina. Odemwingie féll og var Reina dæmdur brotlegur.

Brunt klikkaði ekki heldur í síðara skiptið og kom West Brom yfir.

Skrtel fékk svo frábært tækfæri til að jafna metin og skora sitt annað mark í leiknum þegar hann skallaði fram hjá í uppbótartíma. Luis Suarez átti einnig tvær marktilraunir í blálokin en allt kom fyrir ekki.

Liverpool er því enn í sjötta sæti deildarinnar með 45 stig en West Brom stökk upp í það tólfta með 36 stig.

Þeir Daniel Agger og Glen Johnson, leikmenn Liverpool, þurftu báðir að fara af velli í fyrri háflleik vegna meiðsla.

Chelsea tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni er liðið gerði 1-1 jafntefli við Stoke á útivelli. Chelsea er nú ellefu stigum á eftir toppliði Manchester United og á tæpast möguleika á að verja enska meistaratitilinn upp úr þessu.

Birmingham vann einnig mikilvægan sigur gegn Bolton í dag, 2-1, og tryggði sér dýrmæt stig í fallbaráttunni.

Newcastle vann Wolves og er í níunda sæti deildarinner. Everton og Aston Villa skildu jöfn, 2-2, og þá gerðu Wigan og Tottenham markalaust jafntefli.

Úrslit og markaskorarar:

Birmingham - Bolton 2-1

1-0 Kevin Phillips (4.)

2-0 Craig Gardner (59.)

2-1 Johan Elmander (70.)

Everton - Aston Villa 2-2

1-0 Leon Osman (38.)

1-1 Darren Bent (47.)

1-2 Darren Bent (68.)

2-2 Leighton Baines (83.)

Newcastle - Wolves 4-1

1-0 Kevin Nolan (22.)

2-0 Shola Ameobi (45.)

3-0 Peter Lovenkrands (50.)

3-1 Sylvan Ebanks-Blake (58.)

4-1 Jonas Gutierrez (90.)

Stoke - Chelsea 1-1

1-0 Jonathan Walters (8.)

1-1 Didier Drogba (33.)

West Brom - Liverpool 2-1

0-1 Martin Skrtel (50.)

1-1 Chris Brunt, víti (62.)

2-1 Chris Brunt, víti (88.)

Wigan - Tottenham 0-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×