Enski boltinn

Dalglish skilur ekki vítaspyrnudóminn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kenny Dalglish og Roy Hodgson, forveri hans og núverandi stjóri West Brom, heilsast fyrir leik liðanna í dag.
Kenny Dalglish og Roy Hodgson, forveri hans og núverandi stjóri West Brom, heilsast fyrir leik liðanna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, skilur ekki af hverju Martin Atkinson dæmdi víti sem tryggði á endanum West Brom 2-1 sigur á sínum mönnum í dag.

Reyndar komu bæði mörk West Brom af vítapunktinum en Chris Brunt skoraði úr  vítapspyrnunum.

Ekki var hægt að kvarta undan fyrri dómnum en Dalglish var ósáttur við þann síðari er Pepe Reina var dæmdur brotlegur eftir að Peter Odemwingie féll í teignum.

Reyndar var það aðstoðardómari Atkinson sem gaf til kynna að brot hafi átt sér stað áður en dómarinn sjálfur benti á punktinn. Við það er Dalglish ósáttur.

„Við náðum forystunni í leiknum en þeir komu til baka með tveimur vítaspyrnum,“ sagði Dalglish.

„Það er hægt að deila um hvort þetta voru réttir dómar eða ekki en mér finnst að einhver þurfi að útskýra af hverju dómarinn dæmir stundum og svo aðstoðardómarinn í öðrum tilvikum.“

Svipað atvik kom upp í leik Liverpool gegn Sunderland fyrir tveimur vikum en þá kom það Liverpool til góða.

„Við nutum góðs af þessu í leiknum gegn Sunderland. Þeim fannst yfir þá gengið en við vorum líka undrandi,“ sagði Dalglish. „Það er hægt að deila um ýmislegt en málið er að það voru tveir mismunandi aðilar sem dæmdu þessi víti.“

„Samskipti eru öllum til góðs og kannski skiljum við þetta betur ef við fáum að vita ástæðurnar sem liggja þarna að baki. En kannski hefði verið enn betra ef þessi umræða hefði átt sér stað fyrir tímabilið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×