Enski boltinn

Ancelotti gefst ekki upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segir að sínir menn eigi enn möguleika á enska meistaratitlinum þrátt fyrir að vera nú ellefu stigum á eftir toppliði Manchester United.

Chelsea gerði 1-1 jafntefli við Stoke í dag en bæði mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.

Leikurinn var þó fjörlegur en bæði lið komust nálægt því að bæta við marki.

„Þetat voru góð úrslit vegna þess að bæði lið fengu tækifæri til að skora fleiri mörk," sagði Ancelotti við enska fjölmiðla eftir leikinn. „Við reyndum að vinna, við gáfum allt og þetta var fjörlegur leikur."

Chelsea mætir Manchester United í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudaginn en þrátt fyrir muninn á liðunum í deildinni heldur Ancelotti enn í vonina um að geta náð liðinu að stigum.

„Við verðum að halda í okkar vonir og gera okkar besta. Það var ekki auðvelt fyrir að minnka þennan mun og það verður enn erfiðara nú. Við verðum bara að taka einn leik fyrir í einu."

„Leikurinn á miðvikudaginn verður mjög erfiður enda er United með eitt besta lið Evrópu. Við þekkjum þá mjög vel og við þurfum að spila eftir bestu getu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×