Enski boltinn

City lék sér að Sunderland

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Leikmenn City fagna marki í dag.
Leikmenn City fagna marki í dag. Nordic Photos / Getty Images
Manchester City lék sér að Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í dag og vann öruggan sigur, 5-0. City er þar með komið í vænlega stöðu með að tryggja sér Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð.

Adam Johnson kom City yfir á 9. mínútu með marki eftir vel útfærða sókn. Johnson tók sprett upp hægra kantinn, tók skemmtilegt þríhyrningaspil við Mario Balotelli og afgreiddi boltann snyrtilega í markið framhjá Simon Mignolet í marki Sunderland.

Aðeins sex mínútum síðar dró aftur til tíðinda þegar Carlos Tevez var felldur innan vítateigs af Phillip Bardsley. Tevez fór sjálfur á punktinn og skoraði með naumindum því Mignolet var í boltanum.

Í síðari hálfleik héldu City engin bönd. David Silva skoraði þriðja markið á 63. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Balotelli. Patrick Viera bætti við fjórða markinu fjórum mínútum síðar í sinni fyrstu snertingu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Yaya Toure fullkomnaði niðurlægingu Sunderland með marki á 73. mínútu eftir hrikalega varnarmistök í vörn Sunderland. Manchester City er nú komið upp í þriðja sæti deildarinnar með 56 stig en Sunderland er í 12. sæti og liðið hefur ekki unnið leik frá því í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×