Enski boltinn

Verður Gerrard frá út tímabilið?

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Nordic Photos/Getty Images
Sögusagnir eru uppi um að tímabilinu hjá Steven Gerrard sé lokið eftir að meiðsli í nára tóku sig upp á ný á æfingu með Liverpool á föstudag. Hann fór í aðgerð vegna þessara meiðsla í lok mars og hefur síðan þá ekkert leikið með liðinu.

News of the World greinir frá því að hann hafi þurft að hætta þátttöku í æfingu með Liverpool á föstudag og verði ekki meira með á tímabilinu. Þessi þrítugi miðjumaður gæti einnig átt á hættu að missa af landsleik Englands gegn Sviss sem fram fer 4. júní í undankeppni EM 2012.

„Steven æfði með okkur á föstudag, tilbúinn til að vera með í leiknum gegn West Brom,“ sagði Kenny Dalglish eftir 2-1 tap gegn West Brom í gær. „Hann snéri sér með boltann og fann þá fyrir miklum verk. Þetta er á sama stað og nárameiðslin en þó ekki þau sömu. Hann fer í rannsókn og við vitum meira í lok vikunnar.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×