Enski boltinn

Bale getur vel hugsað sér að spila utan Englands

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gareth Bale, vængmaður Tottenham, segir að sú tilhugsun að spila með liði utan Englands heilli sig en hann hefur þegar verið orðaður við báða Spánarrisana í vetur.

Þrenna Bale fyrir Spurs gegn Inter skaut honum hátt á stjörnuhimininn í Evrópu og ljóst að stóru liðin í Evrópu eru til í að greiða vænan skilding fyrir leikmanninn.

Spurs aftur á móti hefur lítinn áhuga á því að selja og leikmaðurinn gerði nýlega nýjan samning við félagið.

"Maður veit aldrei hvað gerist en ég óttast ekki að spila í öðru landi. Ef ég fæ frábært tækifæri er það eitthvað þess virði að skoða alvarlega," sagði Bale.

"Ég fór að heiman 15 ára gamall. Ef ég yfirgef England og flyt í annað land þar sem ég þarf að læra nýtt tungumál mun ég þroskast enn meira."

Bale er vel meðvitaður um hversu mikið fjallað er um hann eftir þrennuna frægu.

"Ég reyni að hugsa sem minnst um það en strákarnir í liðinu eru duglegir að stríða mér. Ég er að spila minn besta bolta á ferlinum og mér líður eins og það sé verið að tala um einhvern annan þegar verið er að tala um verðmiðann á mér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×