Erlent

Píndi fórnarlömbin með söxuðum lauk

Fórnarlömb bandarísks ræningjagengis felldu tár þegar það píndi þau til að afhenda sér verðmæti, enda beittu þeir söxuðum lauk við verkið.

Bandarískir dómstólar rétta nú yfir Erick Mejia, en honum er gefið að sök að hafa rænt fé og dópi af eiturlyfjasölum. Mejia þóttist vera lögreglumaður, var með fölsk skilríki og blikkandi ljós á bílnum sínum og stöðvaði eiturlyfjasala á förnum vegi. Hann beitti þá svo ofbeldi ásamt ræningjagengi sínu til að neyða þá til að afhenda sér verðmætin. Gengið barði stundum eiturlyfjasalana, brenndi þá með straujárni, kaffærði þá og notaði tangir til að kreista á þeim eistun.

Í að minnsta kosti tveimur tilvikum notuðu mennirnir svo grænmeti til að pína fórnarlömbin, þegar þeir bundu þau niður og stungu höfðinu á þeim inn í poka fullan af niðursöxuðum lauk. Lögregluyfirvöld fullyrða að þannig hafi mönnunum tekist að framkalla köfnunartilfinningu hjá fórnarlömbum sínum, og neytt þau til að afhenda sér fé og eiturlyf.

Talið er að maðurinn hafi þannig rænt yfir 30 kílóum af kókaíni og andvirði meira en fimmtán milljóna í reiðufé í þessum tveimur tilfellum. Talið er að ræningjagengið beri ábyrgð á yfir hundrað ránum og ofbeldisverkum víðsvegar um Bandaríkin, meðal annars með fulltingi lögreglumanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×