Enski boltinn

Fulham reisir styttu af Michael Jackson fyrir utan Craven Cottage

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jackson.
Michael Jackson. Mynd/AFP
Fulham ætlar að heiðra minningu Michael Jackson og vinskapar hans við eiganda félagsins, Mohamed Al Fayed, með því að reisa stytta af konungi poppsins fyrir utan

Craven Cottage. Styttan verður vígð 3. apríl eða fyrir leik á móti Blackpool í ensku úrvalsdeildinni.

„Michael Jackson var sönn goðsögn en það er alltof frjálslega farið með það hugtak á okkar tímum í orðagjálfri um fræga fólkið," sagði Mohamed Al Fayed um leið og hann tilkynnti um nýju styttuna.

„Hann var vinur minn og maður sem ég eyddi mörgum ánægjulegum stundum með. Því miður dó hann langt fyrir aldur fram," bætti Al Fayed við.

Styttan átti upphaflega að rísa fyrir utan Harrods-verslunina en það breyttist eftir að Al Fayed seldi verslunarkeðjuna á síðasta ári.

Michael Jackson kom nokkrum sinnum á Craven Cottage í lifanda lífi og sat þá við hlið Al Fayed með svartan og hvítan Fulham-trefil.

Breskir fjölmiðlamenn grínuðust með það hvort að Mark Schwarzer, markvörður Fulham, myndi aðeins vera með einn hanska í leiknum til heiðurs Jackson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×