Enski boltinn

Mancini: Mario hlustar ekkert á mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, er orðinn þreyttur á því að ná ekki til Mario Balotelli sem gengur illa að hlýða fyrirmælum hjá City alveg eins og var upp á teningnum undir stjórn Jose Mourinho hjá Inter Milan.

Balotelli hefur verið að rífast við bæði Mancini og liðsfélaga sína í síðustu leikjum og það hefur ekkert gengið hjá Mancini að fá Balotelli til þess að hlusta á sig þegar Mancini er að gefa fyrirmæli af hliðarlínunni.

„Hann er ekki að hlusta á mig. Ég tala við hann en ég held að hann meðtaki ekki það sem ég er að segja við hann," sagði Roberto Mancini. Balotelli skoraði eina mark Manchester City í 1-1 jafntefli við Fulham um síðustu helgi en Mancini var engu að síður ekki sáttur með frammistöðu hans.

Balotelli spilaði mun betur í 3-0 sigri á Aston Villa í enska bikarnum í vikunni og skoraði þar meðal annars mjög gott mark sem var það tíunda hjá honum á tímabilinu.

„Það skiptir ekki öllu máli þótt að hann hlusti ekki á mig því aðalatriðið er að hann spili vel og skori mörk. Ég veit samt að hann getur gert miklu betur því ég þekki vel hæfileikana hans. Hann getur breytt öllum leikjum ef hann var vill það og hann gæti skorað í öllum leikjum," sagði Mancini.

„Ég vona það okkar vegna og hans vegna, að hann átti sig á þessu sem fyrst," sagði Mancini sem ætlar að nota Balotelli í heimaleiknum á móti Wigan um helgina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×