Innlent

Foreldrar telpunnar vilja afskipti ráðuneytis

Erla Hlynsdóttir skrifar
Foreldrar telpu sem piltur á Akranesi káfaði á, hafa leitað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og óskað eftir því að pilturinn verði færður í annan skóla. Úrræði ráðuneytisins eru þó afar takmörkuð.

Fréttablaðið greinir frá því í dag ung telpa á Akranesi hefur í skólanum ítrekað þurft að hitta unglingspilt sem sýndi henni óeðlilega kynferðislega hegðun. Samkvæmt heimildum fréttastofu káfaði pilturinn á kynfærum hennar. Þetta mun hafa gerst á síðasta ári þegar telpan var í heimsókn á heimili drengsins.

Tveir grunnskólar eru á Akranesi og vilja foreldrar stúlkunnar að pilturinn verðir færður í hinn skólann. Vegna vaxandi kvíða telpunnar að undanförnu hafa þau haldið henni frá skóla í viku.

Skóla- og bæjaryfirvöld hafa neitað að færa piltinn milli skóla þar sem hann hefur ekki brotið gegn agareglum skólans.

Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á Akranesi, ber við að óheimilt sé að flytja barn úr skóla án samþykkis forráðamanna þess.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, tekur fram að hann getur ekki tjáð sig um einstök mál. Almennt leggur hann áherslu á að þegar gerandi er barn sé málsmeðferð önnur en þegar um fullorðinn geranda að ræða.

Meginreglan sem barnaverndaryfirvöld fara eftir er að bæði þolanda og geranda sé veitt viðeigandi aðstoð, en síður er gripið til refsiúrræða gegn geranda þar sem það er talið síður líklegt til árangurs.

Foreldrar telpunnar vilja róttækari aðgerðir. Þeir hafa leitað til menntamálaráðuneytins og óskað eftir að það blandi sé í málið og beiti sér fyrir því að hann verði færður í annan skóla.

Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu mega þeir búast við formlegu svari stax eftir helgina.

Sé tekið mið af gildandi lögum um grunnskóla má telja ólíklegt að ráðuneytið geti beitt sér í málinu.


Tengdar fréttir

Óásættanlegt að bregðast ekki við

Lögmaður foreldra sem tekið hafa unga dóttur sína úr skóla á Akranesi segir óásættanlegt ef yfirvöld í bænum ætla ekki að taka á málinu. Í skólanum hefur telpan reglulega hitt unglingspilt sem nýlega kom í ljós að hefur brotið gegn henni kynferðislega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×