Innlent

Tóku dóttur sína úr skóla af ótta við að hún hitti geranda

Foreldrar á Akranesi hafa ekki sent dóttur sína í skólann í rúma viku af ótta við að þar muni hún hitta unglingspilt sem nýverið kom í ljós að hefur brotið gegn henni kynferðislega.

Telpan stundar nám í einum af yngri bekkjum annars grunnskóla bæjarins og drengurinn er í unglingadeild sama skóla.

Telpan greindi foreldrum sínum frá brotunum í janúar. Þau áttu sér stað þegar hún var á síðasta ári í leikskóla og drengurinn var tólf ára. Telpan var þá tíður gestur á heimili drengsins.

Foreldrarnir fóru með málið til lögreglu, sem tilkynnti það til barnaverndaryfirvalda. Bæði telpan og drengurinn hafa síðan hlotið viðhlítandi aðstoð. Foreldrarnir hafa síðan reynt að fá skóla- og bæjaryfirvöld til að koma í veg fyrir samgang dóttur sinnar við piltinn, en án árangurs.

Í stöðumati Barnahúss vegna telpunnar frá í ágúst segir að gerðar hafi verið viðeigandi ráðstafanir innan skólans til að tryggja að þau hittust ekki, til dæmis í frímínútum og í matsal, en foreldrarnir telja skólann hafa svikið það loforð og leiðir þeirra liggi reglulega saman. Þetta valdi stúlkunni mikilli vanlíðan og því hafi þau ákveðið að taka telpuna úr skóla þar til viðunandi lausn fyndist.

Sálfræðingur Barnahúss segist í svari til foreldranna hafa verið bjartsýnn á það í byrjun að ekki þyrfti að aðskilja börnin. „En eftir því sem liðið hefur á meðferð stúlkunnar hefur skoðun mín hvað það varðar tekið miklum breytingum þar sem [hún] sýnir alvarleg kvíða- og streitueinkenni sem frekar hafa aukist en hitt undanfarið."

Skóla- og bæjaryfirvöld bera hins vegar fyrir sig að barni verði ekki vikið úr skóla eða það fært annað nema það hafi brotið verulega gegn agareglum skólans. Í þessu tilviki hafi brotið verið alls ótengt skólanum og því verði pilturinn ekki færður annað án samþykkis foreldra sinna.

Pilturinn hefur hitt sálfræðing vegna málsins og kemur fram í minnisblaði bæjaryfirvalda vegna þess að sú meðferð hafi gengið vel, hann hafi horfst í augu við gerðir sínar og fylgt öllum fyrirmælum. Litlar líkur séu á því að hann brjóti aftur af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×