Íslenski boltinn

Formaður Þórs ósáttur við framkomu leikmanna aðkomuliða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Formaður Þórs, Sigfús Ólafur Helgason, hefur fengið sig fullsaddan af framkomu leikmanna aðkomuliða á Þórsvelli í sumar. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við getum byrjað á að tala um viðskilnað liða við klefann þegar þau hafa yfirgefið leikvang. Það er stundum þannig að maður á bara ekki orð. Maður skilur ekki að þarna hafi verið fólk á ferð," sagði Sigfús.

Sigfús er ósáttur við framkomu leikmanna gagnvart mannvirkjum og starfsfólki.

„Það hafa verið unnar skemmdir á stúkunni, þetta er nú nýtt mannvirki. Síðan er náttúrulega framkoma leikmanna bæði við mannvirki og starfsmenn stundum með hreinum ólíkindum. Við verðum að uppræta þennan ósóma."

Sigfús segir framkomu Kjartans Henry Finnbogasonar, leikmanns KR, hafa fyllt mælinn. Kjartan var rekinn af velli með rautt spjald í 2-1 sigri KR-inga norðan heiða í síðustu umferð Pepsi-deildar karla.

„Já, í sjálfu sér var það það sem fékk mig til þess að segja hingað og ekki lengra. Það var í sjálfu sér ekki stórt atvik en engu að síður var þar veitt að húsmunum í húsinu og hurðum skellt með þeim látum að ég hélt að hún færi bara úr. Með ókvæðisorðum gegn starfsmönnum leiksins eftir að leikmaðurinn var rekinn útaf.

Mér finnst þetta orðið þannig að ég get ekki orða bundist. Við verðum að finna einhverja leið út úr þessu. Þetta er ekki íþróttinni til framdráttar, alls ekki."

Fréttin var fyrsta íþróttafréttin í kvöldfréttum Stöðvar 2 og hægt er að horfa á hana í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×