Fótbolti

Brasilíumenn unnu sannfærandi sigur á Bandaríkjamönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar marki sínu í nótt.
Neymar fagnar marki sínu í nótt. Mynd/AP
Brasilíska landsliðið byrjaði vel undir stjórn Mano Menezes þegar liðið vann sannfærandi 2-0 sigur á Bandaríkjunum fyrir framan 77.223 manns í æfingaleik í New Jersey í nótt.

Dunga, fyrrum þjálfari Brasilíumanna, skildi þá Neymar og Alexandre Pato eftir heima þegar hann valdi HM-hópinn sinn en þeir voru báðir á skotskónum í leiknum í gær. Lið Brasilíu var skipað ungum og reynslulitlum leikmönnum sem nýttu tækifærið sitt vel.

Neymar var að leika sinn fyrsta landsleik og kom Brasilíu í 1-0 á 29. mínútu með skallamarki en þessi 18 ára strákur frá Santos hefur verið einn mest umtalaði leikmaður í Brasilíu síðasta árið.

Alexandre Pato, leikmaður AC Milan, skoraði seinna markið í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir stungusendingu frá Ramires. Brasilíumenn gátu skorað mun fleiri mörk og áttu meðal annars tvö stangarskot í seinni hálfleiknum.

„Þetta er fótboltinn sem við munuum spila hér eftir," sagði Mano Menezes eftir leikinn og Neymar talaði um að nýi þjálfarinn hefði gefið leikmönnum það frjálsræði sem þeir þruftu til að spila hinn fræga sambabolta sinn á nýjan leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×