Íslenski boltinn

Ólafur: Svekkjandi að geta ekki leyft fleirum að taka þátt

Oddur Óli Jónasson í Charlotte skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í baráttunni í leiknum í nótt.
Kolbeinn Sigþórsson í baráttunni í leiknum í nótt.

Ísland gerði markalaust jafntefli við Mexíkó í vináttulandsleik í Charlotte í nótt. Landsliðsþjálfarinn Ólafur Jóhannesson var verulega ánægður með framlag síns liðs.

„Við vörðumst vel. Við vissum það fyrir leikinn að við yrðum minna með boltann eins og oft vill vera með íslenska landsliðið. En ég er meira en lítið ánægður með frammistöðu leikmanna, þeir stóðu sig feyknarvel," sagði Ólafur eftir leik.

Um 70 þúsund áhorfendur voru mættir á leikinn og létu vel í sér heyra. Flestir leikmanna Íslands í þessu verkefni leika hér heima og eru ekki vanir því að spila fyrir framan svo marga.

„Ég held að enginn þeirra hafi spilað fyrir framan svona marga áhorfendur. Það var mögnuð stemning á vellinum. Ég sagði fyrir leikinn að þetta gæti ekki verið annað en gaman. Ég sagði leikmönnum fyrir leik að hafa bara gaman að þessu og leggja sig 100% fram, þá næðum við fínum úrslitum."

Um síðustu helgi vann Ísland 2-0 sigur á Færeyjum og fylgdi þeim svo eftir með þessum fínu úrslitum gegn Bandaríkjunum. „Við höfum verið saman í sex daga. Við spiluðum vel gegn Færeyjum. Andinn í hópnum var mjög góður allan tímann og menn vel fókuseraðir á það sem við vorum að gera. Það sást í þessum leik," sagði Ólafur.

„Það stóðu allir sig vel. Markmið fyrir leik var að halda hreinu og loka öllum leiðum. Yfirleitt fær maður alltaf eitthver tækifæri á að skora í fótbolta."

Ólafur gerði örfáar skiptingar í leiknum en var ánægður með þá sem við sögu komu. „Þeir stimpluðu sig vel inn og sýndu mikinn dugnað. Eina sem var svekkjandi var að geta ekki leyft fleirum að taka þátt í leiknum. Þegar leikir þróast svona er erfitt að koma inn í þá. Það breytir taktinum í leiknum," sagði Ólafur Jóhannesson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×