Íslenski boltinn

Guðjón: Ég hefði getað komið okkur inn í leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson
Guðjón Pétur Lýðsson
Haukamaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson átti ágætan leik á móti Stjörnunni í kvöld en það dugði þó skammt í 5-0 tapi.

„Við vorum greinilega ekki tilbúnir í þennan slag. Ég hefði hugsanlega getað komið okkur inn í leikinn með því að skora úr vítinu og verð að taka þetta svolítið á mig," sagði Guðjón Pétur Lýðsson, besti maður Hauka í kvöld. Hann átti möguleika á að minnka muninn í 2-1 á 52. mínútu en lét þá Bjarna Þórð Halldórsson, markvörð Stjörnunnar verja frá víti.

„Við ætluðum að gefa okkur alla í þetta og koma okkur inn í leikinn. Um leið og við förum að gefa færi á okkur þá fáum við líka mörk á okkur. Það kom í bakið á okkur að ætla að sækja," sagði Guðjón.

Haukarnir gáfu mikið eftir í lokin og fengu á sig þrjú mörk á síðasta hálftímanum. Guðjón hljóp allar 90 mínúturnar en það voru margir í liðinu sem voru búnir að gefast upp.

„Ég gafst ekki upp en það voru sumir í liðinu sem voru ekki tilbúnir að berjast allan leikinn. Við þurfum allir að fara að koma okkur í gírinn og reyna að klára þetta almenninlega. Þó að þetta sé erfitt núna þá þurfa menn að klára þetta almennilega. Það er möguleiki og þetta er ekki búið ennþá. Við þurfum samt allir sem einn að gefa okkur algjörlega í restina ef við ætlum að halda okkur uppi," sagði Guðjón að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×