Innlent

Innstæður ekki tryggðar fyrr en eftir hrun

Þorbjörn Þórðarson. skrifar
Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Ríkisstjórn Geirs Haarde gaf aldrei út yfirlýsingu sumarið 2008 um að allar innstæður væru tryggðar, eftir því sem næst verður komist. Þær yfirlýsingar voru gefnar eftir bankahrun. Hins vegar lýsti viðskiptaráðuneytið því yfir í bréfasamskiptum við bresk stjórnvöld sumarið 2008 að stutt yrði við bakið á tryggingarsjóði innstæðueigenda til að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar.

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við fréttastofu í gær að ríkisstjórn Geirs Haarde hafi lofað því sumarið 2008 að allar innstæður í íslenskum bönkum væru tryggðar. Eftir því sem fréttastofa kemst næst var ekkert slíkt loforð gefið út af ríkisstjórninni sjálfri. Hins vegar var í bréfaskriftum viðskiptaráðuneytisins og breska fjármálaeftirlitsins í ágúst 2008 lýst yfir að íslensk stjörnvöld myndu styðja við bakið á Tryggingarsjóði innstæðueigenda.

Björn Valur sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hann væri fyrst og fremst að vísa til yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um haustið, við upphaf bankahrunsins og bréfasamskipta íslenskra og breskra stjórnvalda rétt fyrir hrun.

Fram hefur komið áður í fréttum að breska fjármálaeftirlitið hafi haft áhyggjur af stöðu Landsbankans sumarið 2008. Jafnframt kemur það fram í Umsátrinu, bók Styrmis Gunnarssonar fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að breska fjármálaeftirlitið hafi gert Landsbankanum ljóst í bréfi hinn 15. ágúst í fyrra að innlánastarfsemi hans í Bretlandi yrði stöðvuð ef ekki yrði farið að kröfum þess. Í kjölfarið fóru fram samskipti milli íslenskra og breskra stjórnvalda sem voru öll á þá laund að íslensk stjórnvöld myndu styðja við bakið á tryggingarsjóði innstæðueigenda. Hið sama var uppi á teningnum í bréfi Halldórs J. Kristjánssonar og Sigurjóns Þ. Árnasonar, bankastjóra Landsbankans, til hollenska Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×