Innlent

Telur óeðlilega staðið að könnun í Kópavogi

Ármann Kr. Ólafsson Forseti bæjarstjórnar í Kópavogi og fyrrverandi alþingismaður vill verða bæjarstjóraefni sjálfstæðismanna. Ármann vill samvinnu og gagnsæi í bæjarstjórn.
FRéttablaðið/GVA
Ármann Kr. Ólafsson Forseti bæjarstjórnar í Kópavogi og fyrrverandi alþingismaður vill verða bæjarstjóraefni sjálfstæðismanna. Ármann vill samvinnu og gagnsæi í bæjarstjórn. FRéttablaðið/GVA
Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi, býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í maí. Þar með fær Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri, keppinaut um leiðtogasætið á framboðslistanum.

Eins og fram hefur komið telur Gunnar, sem lét af starfi bæjarstjóra í fyrrasumar og steig stuttu síðar einnig til hliðar sem bæjarfulltrúi, sig eiga góða möguleika í prófkjörinu. Vitnaði Gunnar þar í könnun sem Capacent gerði fyrir Sjálfstæðisfélagið í Kópavogi og sýnir 57 prósenta fylgi við hann meðal sjálfstæðismanna sem næsta bæjarstjóra.

Gunnar segist fagna framboði Ármanns. „Þetta er einfaldlega lýðræðið,“ bendir Gunnar á. Hann metur möguleika sína enn góða þrátt fyrir framboð Ármanns og vísar þá sem fyrr í könnunina frá í desember. Þar hafi fylgi Ármanns sem bæjarstjóraefnis aðeins mælst sex prósent.

„Þessi könnun hefur engin áhrif á mig og í raun tek ég ekkert mark á henni þar sem hún var gerð í byrjun desember,“ svarar Ármann spurður um fylgi sitt í könnuninni. Í desemberbyrjun hafi ekkert bent til þess að hann sæktist eftir forystusætinu. Hið pólitíska landslag hafi breyst mikið síðan og hann eigi raunhæfan möguleika á að ná markmiði sínu.

„Þar fyrir utan finnst mér óeðlilegt að flokkurinn skyldi standa fyrir könnun um fylgi einstakra bæjarfulltrúa án þess að bæjarstjóri og oddviti flokksins í bæjarstjórn vissi af henni og ekki heldur aðrir bæjarfulltrúar. Þá er ég líka hugsi yfir því af hverju okkur var ekki sýnd könnunin í heild sinni heldur fengum aðeins að sjá útdrátt úr henni mánuði eftir að hún var gerð,“ segir Ármann.

Í tilkynningu frá Ármanni segir að breyta þurfi vinnubrögðum í bæjarstjórn Kópavogs. Hann muni leggja áherslu á aukna samvinnu allra flokka.

„Ég mun einnig beita mér fyrir skýrari reglum um opna og gagnsæja stjórnsýslu,“ segir í tilkynningunni. „Mikilvægt er að sjálfstæðismenn setji saman sigurstranglegan lista fyrir bæjar­stjórnarkosningarnar næsta vor skipaðan einstaklingum sem hafa til að bera reynslu og ríka samstarfshæfileika, en að jafnframt fari fram nauðsynleg endurnýjun.“ Ármann hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi í þrjú kjörtímabil.

gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×