Innlent

Áformar 60 megavatta virkjun í Hverfisfljóti

Bóndinn á Dalshöfða í Vestur-Skaftafellssýslu áformar allt að sextíu megavatta stórvirkjun í Hverfisfljóti. Þetta yrði langstærsta virkjun hérlendis á vegum einkaaðila. Bóndinn segir að fólksfækkunin í Skaftafellssýslum sé orðin meiri en í Móðuharðindunum.

Hverfisfljót rennur undan suðvestanverðum Vatnajökli og er eitt af vatnsmestu fljótum Suðausturlands. Í landi jarðarinnar Dalshöfða er 200 metra fallhæð sem Ragnar Jónsson bóndi vill virkja. Upphaflega áformaði hann litla virkjun upp á tvö og hálft megavatt en þegar hún þurfti í umhverfismat stækkaði hugmyndin í 15 megavött og hefur nú stækkað enn meir; Ragnar vill nú 60 megavatta rennslisvirkjun inn á aðalskipulag.

Ragnar býst þó ekki við að virkjunin verði svo stór en kveðst hafa viljað hafa þetta ríflegt fyrir aðalskipulag og rammaáætlun. Það sé þá hægara að virkja minna heldur en að stækka.

Dalshöfði er sú jörð sem fór hvað verst út úr Skaftáreldum árið 1783 þegar hraun rann yfir stóran hluta hennar. Ragnar hefur nú hætt hefðbundnum búskap og selt bústofninn, enda beri jörðin ekki nútímabúskap. Þar séu litlir ræktunarmöguleikar, þurft að heyja víða og langt að sækja heyskap.

Hann sér virkjunina sem hluta af því að verja byggðina, hann vill að orkan leiði til atvinnuppbyggingar heima í héraði enda sé fólksfækkunin nú orðin meiri en gerðist í Móðuharðindunum. Árið 1785, tveimur árum eftir Skaftárelda, hafi búið þar um þúsund manns. Íbúafjöldinn nú sé kominn niður fyrir það.

Ljóst er að Ragnar virkjar ekki einn, hann þarf sterkan samstarfsaðila. Hann segir að margir hafi sýnt þessu áhuga, en það sé í þessu sem öðru um þessar mundir að það taki enginn ákvörðun í dag.

En hann mun varla virkja átakalaust því náttúrverndarsamtök hafa lýst athugasemdum. Bóndinn á hins vegar jörðina, vatnsréttindi og annan eignarétt, og hann kveðst ekki ætla að sætta sig við að sá réttur verði tekinn frá sér með friðlýsingu bótalaust. Hann kveðst ekki trúa öðru en að menn vilji beisla svona afl til að fá vistvæna orku. Hann segir að það sé allt í lagi að friðlýsa ef menn telji að það sé meira út úr þessu að hafa með því að gera ekki neitt. Það komist hins vegar ekki inn í sinn koll hvernig það eigi að vera.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×