Innlent

Allt millilandaflug gæti stöðvast vegna eldgossins

Höskuldur Kári Schram skrifar

Allt millilandaflug til og frá landinu gæti stöðvast vegna eldgossins en hagstæðar vindáttir hafa ráðið því að aðeins hefur þurft að loka einum millilandaflugvelli af fjórum í dag.

Viðbragðsáætlun Flugstoða tók fljótlega gildi eftir að eldgosið hófst undir Eyjafallajökli.

Egilsstaðaflugvelli var lokað og verulegar takmarkanir settar á alla flugumferð yfir Austurlandi og yfir hafsvæðinu milli Íslands og Noregs.

„Hvers vegna er verið að loka svæðum? það er útaf öskunni. Nú erum við að tala um öskugos, þetta er allt öðruvísi gos en var um daginn og askan hefur í gegnum tíðina ekki farið vel með hreyfla í flugvélum og hún er talin hættuleg flugvélum," segir Hjördís Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi Flugstoða.

Vindátt hefur verið nokkuð hagstæð en ekki er útilokað að bannsvæðið gæti teygt sig alla leiðina til Rússlands.

„Ef að vindurinn feykir öskunni í ákveðnar átti þá er mjög líklegt að svæðið muni stækka og það mun hafa gífurleg áhrif á flugumferð á og í kringum ísland og miklu miklu víðar," segir Hjördís.

Ekki er útilokað að stöðva þurfi allt millilandaflug til og frá landinu.

„Það gæti komið upp sú staða að við þyrftum að loka öllum flugvöllum á Íslandi en sú staða mundi mjög ólíklega vara lengi vegna þess við erum svo heppin að við erum með nokkra alþjóðalega flugvelli á íslandi, ef Keflavíkurflugvelli yrði lokað í einhvern ákveðinn tíma þá erum við með Akureyri, Egilsstaði og Reykjavíkurflugvöll. Allt fer þetta eftir vindum og ef að völlunum verður lokað þá verður það ekki til langs tíma," segir Hjördís.

Þær upplýsingar voru að berast frá Flugstoðum miðað við uppfærða öskudreifingarspá að allar vísbendingar um að flugumverð til og frá Noregi og mun líklega fleiri Norðurlöndunum muni liggja niðri um hádegisbilið á morgun. Spáin verður uppfærð á miðnætti í kvöld og eru flugfarþegar sem eiga bókuð flug til þessara landa beðnir um að fylgjast með. Taka verður fram að opið er fyrir flugumferð frá Keflavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×