Innlent

Blendnar tilfinningar

Halldóra Geirharðsdóttir fékk þrjár tilnefningar.
Halldóra Geirharðsdóttir fékk þrjár tilnefningar. Mynd/Anton Brink
„Það er gott að hrista upp í hlutunum," segir Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona, sem fékk í gær þrjár tilnefningar til Grímuverðlauna.

Alls er tilnefnt í 17 flokkum til Grímuverðlaunanna í ár. Ása Richardsdóttir, formaður stjórnar Grímunnar, segir að bæði stór og lítil verk standi upp úr eftir leikárið, en minni dreifing sé á tilnefningum í ár. „Við sjáum strax að valnefndir voru mjög sammála. Það voru um það bil tíu sýningar að fá langflestar tilnefningar," segir Ása.

Þetta er Í fyrsta sinn sem Borgarleikhúsið fær fjórar af fimm tilnefningum fyrir sýningu ársins. Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri, segir tilnefningarnar hvatningu til að halda áfram.

„Við erum afskaplega þakklát og stolt af okkar starfsfólki og sýningum. Þetta var sterkt leikár í Borgarleikhúsinu og öðrum leikhúsum. Við erum auðvitað þakklát fyrir þessa viðurkenningu þó það sé ekki upphaf og endir alls," segir Magnús Geir.

Halldóra Geirharðsdóttir fékk þrjár tilnefningar, tvær fyrir leikkonu í aðalhlutverki og eina sem leikskáld. „Þetta er alltaf rosalega gaman en þetta eru mjög blendnar tilfinningar út af því að manni er hampað umfram félaga sína sem standa með manni á sviðinu. Ég hef alltaf átt svolítið erfitt með vera dregin út úr hópnum því ég hef alltaf verið hópdýr. Mér finnst það ekki þægilegt," segir Halldóra.

Jón Atli Jónasson hlaut tvær tilnefningar til Grímunnar. Hann sendi frá sér tilkynningu fyrr í vikunni þar sem hann sagðist myndu sniðganga verðlaunin vegna verndara verðlaunanna sem Ólafur Ragnar Grímsson. Halldóra segir þann gjörning hafa verið hressandi.

„Við erum ekki búin að klára pakkann hvort við þurfum yfirhöfuð á verndara að halda eða ekki. Yfir heildina þá nennum við kannski að vera með einhverjar stórar yfirlýsingar en það eru allir að íhuga þetta," segir Halldóra.

Grímuhátíðin verður haldin í áttunda sinn í Þjóðleikhúsinu 16. júiní og verður sjónvarpað beint á Stöð 2.


Tengdar fréttir

Jón Atli neitar að taka við tilnefningum til Grímunnar

Jón Atli Jónasson leikskáld neitar að taka við tilnefningum til Grímunnar. Ástæðuna segir hann vera að hann neiti að viðurkenna Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, sem verndara hennar. Í yfirlýsingu sem hann sendi nú undir kvöld segist hann „gera þetta í krafti þess að það er of margt sem hann þarf að svara í forsetatíð sinni til að geta borið titilinn verndari Grímunnar".

Leikhúsheimur nötrar eftir forsetagjörning Jóns Atla

Benedikt Erlingsson segir það verra en að klæða listamann úr nærbrókunum að taka verðlaun af honum. Jón Atli Jónasson neitar að taka við Grímutilnefningum vegna þess að forseti Íslands er verndari verðlaunanna.

Ekki stefnir í að listamenn sniðgangi Grímuna

Ekkert bendir til að listamenn muni sniðganga Grímuverðlaunin í ár, þrátt fyrir umræðu um aðkomu ráðamanna að verðlaununum. Formaður stjórnar Grímuverðlaunanna segir engan ráðamann afhenda verðlaun að þessu sinni.

Borgarleikhúsið með flestar tilnefningar til Grímunnar

Tilnefningar til íslensku leiklistarverðlaunanna Grímunnar 2010 voru opinberaðar við formlega athöfn í Þjóðleikhúskjallaranum síðdegis í dag. Borgarleikhúsið hlýtur flestar tilnefningar þetta árið, alls 34. Þetta eru fleiri tilnefningar en leikhús hefur nokkru sinni hlotið í sögu Grímunnar á einu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×