Íslenski boltinn

Baldur: Kjartan er góður klárari og þetta kom mér ekki á óvart

Elvar Geir Magnússon skrifar
Baldur var öflugur fyrir KR  í kvöld.
Baldur var öflugur fyrir KR í kvöld.

„Við nálgumst FH og náum aðeins að slíta okkur frá Keflavík," sagði Mývetningurinn Baldur Sigurðsson eftir 2-1 sigur KR gegn Fram. Baldur var maður leiksins og var að sjálfsögðu sáttur við úrslit kvöldsins sem eru heldur betur KR í hag.

„Þetta var gríðarlega mikilvægt mark frá Kjartani. Þetta var glæsilega gert hjá honum og ég er gríðarlega sáttur með hann. Hann er góður klárari og þetta kom mér því ekki á óvart," sagði Baldur um Kjartan Henry Finnbogason sem tryggði KR-ingum sigurinn með marki í lokin

Baldur skoraði fyrra mark KR og kom Vesturbæingum yfir áður en Almarr Ormarsson jafnaði. „Þetta var gríðarlega erfiður leikur og ég held að hver einasti leikur sem við eigum eftir verði svona. En ef þetta dettur með okkur þá lítur þetta vel út," sagði Baldur.

„Við töluðum mikið um það inn í klefa að þetta væri einmitt leikurinn til að rífa sig strax upp eftir vonbrigðin í bikarúrslitunum. Hefðum við tapað þessum leik hefðum við dottið í enn meiri deyfð. Við gerðum nákvæmlega það sem um var talað."

Leikurinn í kvöld var harður og var nálægt því að koma rautt spjald. „Ég hélt að það kæmi rautt spjald þarna en svo var ekki. Allir leikirnir við Fram á þessu ári hafa verið miklir baráttuleikir en það er bara gaman. Það er sérstaklega gaman að vinna þá á lokamínútunum," sagði Baldur.

„Við eigum næst leik við Val á Vodafone-vellinum, við töpuðum fyrir þeim hér og eigum harma að hefna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×