Innlent

Gunnar: Kúlulánadrotting Steingríms

Mynd/Valgarður Gíslason

Forstjóri Bankasýslu ríkisins er kúlulánadrotting Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, að mati Gunnars Birgissonar fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi. Hann segir siðaumvandanir vinstrimanna alltaf eiga við alla aðra en þá sjálfa.

Í pistli á Presunni skýtur Gunnar föstum skotum að fjármálaráðherra og Elínu Jónsdóttur sem nýverið tók við stöðu forstjóra Bankasýslu ríkisins.

Þegar lífeyrissjóðsmálið svokallaða kom upp í Kópavogi ákvað Gunnar að taka sér leyfi sem bæjarfulltrúi en hann hafði þá nýverið vikið sem bæjarstjóri vegna ólgu í bæjarpólitíkinni. Fjármálaeftirlitið kærði stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar í júní á síðasta ári og í framhaldinu vék Steingrímur stjórninni frá og skipaði Elínu sem tilsjónarmann. Gunnar var stjórnarformaður lífeyrissjóðsins.

Gunnar segir greinilegt að Elín sé í miklu uppáhaldi hjá Steingrími. „Tilsjónarmaðurinn gerði ekki miklar rósir á skrifstofu Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar utan lélegar mætingar og ólund. Þá rak hún framkvæmdastjóra sjóðsins, sem ekkert hafði til saka unnið, nema að skrifa bréf í umboði stjórnar."

Því rifjar Gunnar upp umfjöllun DV um kúlulán Elínar. „Þegar syrti í álinn og braskið gekk ekki upp, þá seldi hún fyrirtækið með einskis verðum hlutabréfum en kúlulánið stóð eftir ógreitt," segir Gunnar.

Þá segir Gunnar: „Af þessum sökum er tilsjónarmaðurinn góði, yfirmaður Bankasýslunnar og sérlegur eftirlitsmaður fjármálaráðherra með bankaviðskiptum í landinu kölluð kúlulánadrottningin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×