Enski boltinn

Ívar búinn að gera nýjan eins ára samning við Reading

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ívar Ingimarsson.
Ívar Ingimarsson. Mynd/Getty Images
Ívar Ingimarsson er búinn að framlengja samning sinn við enska b-deildarliðið Reading um eitt ár en þetta var tilkynnt á heimasíðu félagsins í kvöld. Ívar hefur leikið með félaginu frá árinu 2003 og var fyrirliði liðsins á þessu tímabili.

„Ég er mjög ánægður með þetta og þegar farinn að hlakka til næsta tímabils. Ég er mjög glaður að það sé búið að ganga frá öllum lausum endum. Þetta er góð tímasetning því núna get ég farið í sumarfrí vitandi það að ég verð áfram hérna næsta vetur. Ég er búinn að vera lengi hjá þessum klúbbi og það verður gaman að vera hér í að minnsta kosti eitt ár til viðbótar," sagði Ívar í viðtali á heimasíðunni.

„Ég vildi alltaf vera hérna áfram en þetta snérist um að ná samkomulagi sem hentaði bæði mér og klúbbnum," sagði Ívar sem hefur leikið 275 leiki fyrir Reading. Ívar missti af lokum tímabilsins vegna meiðsla aftan í læri en verður klár í fyrsta leik í ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×