Innlent

14 prósent útgjalda borgarinnar fer í húsnæði

Af 8,8 milljarða króna húsnæðiskostnaði Reykjavíkurborgar eru um fimm milljarðar vegna grunnskóla og leikskóla, eða tæp 60 prósent. 457 milljónir króna fara í að greiða leigu vegna Höfðatorgs, nýja háhýsisins þar sem stór hluti af skrifstofum borgarinnar er nú til húsa. Fréttablaðið/Stefán Karlsson
Af 8,8 milljarða króna húsnæðiskostnaði Reykjavíkurborgar eru um fimm milljarðar vegna grunnskóla og leikskóla, eða tæp 60 prósent. 457 milljónir króna fara í að greiða leigu vegna Höfðatorgs, nýja háhýsisins þar sem stór hluti af skrifstofum borgarinnar er nú til húsa. Fréttablaðið/Stefán Karlsson
Reykjavíkurborg greiddi 8,8 milljarða í húsnæðiskostnað á síðasta ári

Húsnæðiskostnaður Reykjavíkurborgar var 8,8 milljarðar og 14 prósent af heildargjöldum borgarinnar árið 2009. Húsnæðiskostnaðurinn var 4,6 milljarðar og 10 prósent af gjöldum árið 2005. Að teknu tilliti til verðbólgu á tímabilinu er raunhækkunin 35 prósent.

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur gagnrýnt hækkandi húsnæðiskostnað. Sífellt stærri hluti af því fé, sem nýta á í þjónustu við borgarbúa, fari í húsnæðiskostnað.

Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, segir að kerfisbreytingar sem hafa lítil raunveruleg áhrif á fjárhag borgarinnar skýri þessa breytingu að mestu.

Borgin stofnaði sérstakan Eignasjóð utan um fasteignir sínar og rekstur þeirra á árinu 2007.

Óskar Bergsson segir að það sé villandi að gera samanburð sem nær aftur fyrir þann tíma. Ýmislegt sé nú talið til húsnæðiskostnaðar sem ekki var talið með áður. Til dæmis 40 prósenta þátttaka borgarinnar í stofnkostnaði nýrra framhaldsskóla. Ríkið rekur framhaldsskólana og borgin taldi þessi framlög ekki með eigin húsnæðiskostnaði fyrr en eftir 2007. Fleiri breytingar skekki samanburðinn. 2007 ákvað Alþingi að borgin, og önnur sveitarfélög, þyrftu að greiða fasteignagjöld af húsnæði grunnskóla og leikskóla og ýmsu öðru opinberu húsnæði, sem var undanþegið gjöldunum áður. Þessi breyting hækkar húsnæðiskostnað um 500 milljónir króna á ári en hefur ekki raunveruleg áhrif á fjárhaginn af því að fasteignagjöldin renna til borgarinnar sjálfrar.

Þá var afskriftatími lengdur og vaxtabyrði hækkuð úr 2,76 prósentum í 4 prósent. Allar þessar kerfisbreytingar hafa aukið gagnsæi í fasteignarekstri borgarinnar, segir Óskar, og gera hann sambærilegan rekstri fasteignafélaga á almennum markaði.

„Við værum ekki að fjalla um þennan aukna kostnað í gamla fyrirkomulaginu,“ segir Óskar. „Með því að stofna Eignasjóðinn fengum við kostnaðinn upp á borðið. Við fylgjumst vel með honum og erum stöðugt að leita leiða til þess að hagræða og ná niður kostnaði.“

Sigrún Elsa segir að þótt skýra megi talsverðan hluta af aukningunni með kerfisbreytingu, breyttum reikningsskilum og hærri fasteignagjöldum, sem hafa ekki raunveruleg áhrif á fjárhag borgarinnar, standi það eftir að meirihlutinn hafi tekið ákvarðanir um framkvæmdir án raunhæfra áætlana um fasteignakostnað og áhrif verðbólgu á kostnaðinn og fjárhag eignasjóðs. Segja megi að gengið hafi verið á eigið fé Eignasjóðs til þess að rýmka fyrir rekstri málaflokka. Samdráttur í rekstri borgarinnar sé nú dýpri en ef áætlanir um húsnæðiskostnað hefðu byggst á réttum forsendum undanfarin ár. Allt útsvar 24.000 Reykvíkinga renni í að greiða húsnæðiskostnaðinn. 18.000 hafi staðið undir kostnaðinum 2005.

2,4 milljarða tap varð af Eignasjóði borgarinnar fyrstu níu mánuði síðasta árs. Eiginfjárhlutfall sjóðsins rýrnaði þá úr tíu prósentum í sex prósent.

Óskar segir að þetta sé fyrst og fremst vegna þess að öll lán Eignasjóðsins eru vísitölubundin. Hins vegar hafi eignirnar ekki verið endurmetnar frá árinu 2002 af því að lögbundnar reikningsskilareglur sveitarfélaga leyfa slíkt endurmat. Endurmatið sé tímabært og mundi breyta eiginfjárstöðunni.

Ekki liggja fyrir tölur um hver raunaukning húsnæðiskostnaðar borgarinnar er þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta sem nefndir eru að ofan. Óskar segir að slíka aukningu megi að hluta til rekja til nýrrar þjónustu borgarinnar, til dæmis eru gerðar auknar kröfur til húsnæðis en áður var gert, eins og hvað varðar fermetrafjölda á hvern nemanda í grunnskólum og leikskólum og þjónustumiðstöðvum.
Óskar Bergsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×