Enski boltinn

Grant: Það verður vinnusemin en ekki heppnin sem skilar sigri á Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Avram Grant, stjóri Portsmouth.
Avram Grant, stjóri Portsmouth. Mynd/AFP
Avram Grant, stjóri Portsmouth, er harður á því að hans menn þurfi ekki heppni til þess að halda ótrúlegu bikarævintýri sínu áfram og vinna Chelsea í bikarúrslitaleiknum í dag. Leikurinn hefst klukkan 14.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Chelsea vann enska meistaratitilinn um síðustu helgi með því að vinna 8-0 sigur á Wigan og það eru ekki margir sem trúa því að lærisveinar Avram Grant geti eitthvað staðið í stórstjörnuliði Chelsea á Wembley í dag.

„Í fótbolta þá gerast tíu prósenst án nokkurrar ástæðu en hin 90 prósent ráðast af vinnusemi, skipulagi og útsjónarsemi. Það er það sem við höfum því við vitum að við erum sterkir á þessum sviðum," sagði Avram Grant.

„Fólk talar um óumflýjanleg örlög sem þýðir þá að þú þurfir ekki að gera neitt því hlutirnir gerist hvort sem er. Ég trúi því hinsvegar að á móti Chelsea þurfum við að vinna okkar vinnu því það verður vinnusemin en ekki heppnin sem skilar okkur sigri á Chelsea," sagði Grant.

„Við þurfum ekki að óttast neitt en við þurfum að vera vel vakandi því þeir geta refsað manni út um allan völl. Þeir eru með mjög gott lið , eiga skilið að vera meistarar og hafa unnið marga leiki með stæl," sagði Avram Grant en hann er ekki hrifinn af því að vera litla liðið.

„Þeir eru kannski betra liðið fyrir leikinn og betra liðið eftir hann en við ætlum að reyna að vera betra liðið á meðan leiknum stendur," sagði Avram Grant.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×