Innlent

Líklegt að ástandið lagist í næstu viku

Ráðuneytið segir að miðað við framleiðsluspár mun framboð á kjúklingi aukast á ný í næstu viku. fréttablaðið/hari
Ráðuneytið segir að miðað við framleiðsluspár mun framboð á kjúklingi aukast á ný í næstu viku. fréttablaðið/hari
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur undanfarna daga fengið fyrirspurnir frá tveimur heildsölum um aukningu á innflutningskvóta á kjúkling. Ástæðan er skortur á innlendum kjúklingi á landinu sem hefur verið viðvarandi sökum skæðrar salmonellusýkingar sem herjaði á kjúklingabú í vor.

Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri framleiðslu- og markaðsskrifstofu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, segir ráðuneytið fyrst hafa heyrt af skortinum á þriðjudag og staðfestir að hann sé til kominn vegna sýkingarinnar í vor. Hann segir þessa viku vera sérlega bágborna hvað varðar framboð en telur líklegt að jafnvægi komist á aftur í næstu viku miðað við framleiðsluspár fyrirtækjanna.

„Að því gefnu að ekkert komi upp á er líklegt að framboðið verði orðið eðlilegt í næstu viku,“ segir Ólafur. Hann telur ekki ástæðu til þess að endurskoða núverandi tollkvóta á kjúkling sökum þessa og breytingar á þeim taki fleiri vikur. Hann segir engar verslanir hafa haft beint samband við ráðuneytið sökum skortsins.

Vegna fréttar á forsíðu Fréttablaðsins í gær vill Matthías Hannes Guðmundsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, árétta að hann hafi ekki sagt í samtali við blaðið að fyrirtækið hafi getað afgreitt allar pantanir. Hann hafi sagt aðspurður að fyrirtækið hafi verið í vandamálum vegna salmonellusýkingar en ástandið væri að lagast. Að því leyti væri ekki fyrirsjáanlegur skortur hjá Reykjagarði.- sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×