Innlent

InDefence þiggja frelsisverðlaunin

„Það er auðvelt að sjá kaldhæðnina í þessu, en við ákváðum að þiggja verðlaunin", segir talsmaður Indefence hópsins sem fékk fyrir helgi Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Barátta Indefence snerist um Icesave-reikninga Landsbankans, þar sem fyrrnefndur Kjartan sat í bankaráði.

Ungir Sjálfstæðismenn rökstuddu val sitt á Indefence með því að hópurinn ætti hvað mestan heiður skilinn fyrir að hindra að gengið yrði að ólögmætum og ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga gegn þjóðinni í Icesave málinu. Ef ekki hefði verið fyrir InDefence, hefði andstaðan við málið líklega ekki náð þeim skriðþunga sem þurfti til að brjóta á bak aftur áform stjórnvalda um að ganga að kröfunum.

Verðlaunin eru kennd við fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins - Kjartan Gunnarsson sem var varaformaður bankaráðs Landsbankans þegar bankinn hóf að safna fé inn á Icesave-reikninga í Bretlandi. Kjartan sat aukinheldur í endurskoðunarnefnd bankans - sem bar lögum samkvæmt að ganga úr skugga um að nægjanlegt eftirlit væri með IceSave. Þá hefur jafnvel komið til tals hjá meirihlutaflokkunum á þingi, að ríkið fari í skaðabótamál við þá sem kunna að bera ábyrgð á tilurð Icesave. Komi til þess gæti títtnefndur Kjartan orðið einn þeirra sem þyrfti að greiða skaðabætur úr eigin vasa til íslenska ríkisins - vegna afleiðinga Icesave, sem Indefence hefur barist ötullega gegn frá hruni.

Jóhannes Þ. Skúlason, talsmaður Indefence, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hópurinn hefði eftir nokkra umhugsun ákveðið að þiggja Frelsisverðlaun Kjartans. Hann viðurkennir að auðvelt sé að sjá kaldhæðnina í þessari verðlaunaveitingu, það hefði hins vegar ekki samrýmst stefnu Indefence að fara í manngreinarálit við að þiggja verðlaun.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×