Fótbolti

Grasið svo hátt að allar kindur Færeyja væru mánuð að éta það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brian Kerr þjálfaði Íra áður en hann tók við færeyska landsliðinu.
Brian Kerr þjálfaði Íra áður en hann tók við færeyska landsliðinu. Mynd/AFP

Brian Kerr, þjálfari Færeyinga, var mjög ósáttur með æfingaaðstöðuna sem Ítalir buðu færeyska landsliðinu upp á í Flórens í gær og í fyrradag.

Þjóðirnar mætast þar í undankeppni EM í kvöld en Ítalir létu mótherja sína æfa á völlum sem tilheyra liðum í neðstu deildunum og voru að mati þjálfarans langt frá því að vera boðlegir.

„Grasið var svo hátt á vellinum að allar kindur Færeyja væru mánuð að éta það," sagði Brian Kerr í léttum tón við ítalska fjölmiðla. Kerr talaði einnig um að það væri hola á vellinum sem varð til þess að Christian Mouritsen meiddist á ökkla.

„Vellirnir sem þeir buðu okkur upp á eru ekki vellir sem landslið eiga skilið. Það eru 200 vellir betri en þessi þar sem ég á heima," sagði Brian Kerr en færeyska liðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppninni, 1-2 á móti Eistlandi og 0-3 á móti Serbíu. Ítalir unnu fyrsta leik sinn á móti Eistlandi, 2-1.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×