Íslenski boltinn

Haukamenn "skjóta" aðeins á markaskorara sína á móti KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Ásbjörn Sæmundsson, númer 23 fyrir miðju, í leiknum á móti KR.
Pétur Ásbjörn Sæmundsson, númer 23 fyrir miðju, í leiknum á móti KR. Mynd/Valli
Haukar náðu 2-2 jafntefli á móti Íslandsmeistaraefnunum KR í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla þökk sé mörkum frá Úlfari Hrafni Pálssyni og Pétri Sæmundssyni. Þeir voru báðir að skora í sínum fyrsta leik í efstu deild. Þeir Úlfar og Pétur fá skemmtileg skot í viðtölum á heimasíðu Hauka fyrir stórleikinn á móti FH á Vodafonevellinum í kvöld.

Úlfar Hrafn Pálsson kom inn á sem varamaður á 72. mínútu á móti KR og minnkaði muninn í 2-1 sjö mínútum síðar. Úlfar viðurkennir að hann hafi kannski verið of æstur en æsingurinn skilaði sér í marki. „Ég held að menn verði að vera rólegri en þeir voru á móti KR allavega ef ég tala frá minni reynslu þá var ég allt of æstur," sagði Úlfar í viðtali á heimasíðu Hauka og það voru fleiri sem tóku eftir þessu.

„Úlli var síðan lagður inn á taugaveiklunardeild Landspítalans eftir leik en hann ætti að vera tilbúinn á sunnudaginn," sagði Hilmar Rafn Emilsson í gríni um félaga sinn.

Það var líka skotið á Pétur Ásbjörn Sæmundsson sem tryggði Haukum jafntefli með glæsilegu skallamarkið á 88. mínútu.

„Ég held að það séu allir komnir á jörðina nema Pétur Ásbjörn. Hann er kominn úr geimnum og niður í skýin og hann verður kominn á jörðina fyrir FH leikinn," sagði Úlfar um hetjuna í KR-leiknum og Hilmar Rafn Emilsson skaut líka vel á félaga sinn.

„Menn tóku kvöldið í að fagna stiginu en síðan byrjað að undirbúa sig fyrir næsta leik, allir nema Pjási (Pétur Ásbjörn). Hann er á æfingu með Lykla-Pétri og félögum núna og er ekkert væntanlegur á næstunni," sagði Hilmar Rafn og það er ljóst að húmorinn er í fyrirrúmi hjá leikmönnum nýliðanna sem komu svo á óvart á KR-vellinum á þriðjudaginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×