Íslenski boltinn

Matthías: Segir sig sjálft að það eru litlar líkur á að við komumst áfram

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Matthías.
Matthías. Fréttablaðið
FH tekur á móti BATE frá Hvíta-Rússlandi í kvöld í seinni leik liðanna í undankeppni Meistaradeildarinnar. FH tapaði fyrri leiknum 5-1 úti. "Ég held að það sé lítið annað í stöðunni en að spila upp á stoltið. Það segir sig sjálft að það eru litlar líkur á því að komast áfram. Einu líkurnar eru ef þeir fá rautt á fyrstu mínútunum eða eitthvað slíkt," segir Matthías. Það er þó að sjálfsögðu ekki til einskis að spila leikinn. "Við viljum fyrst og fremst ná góðum úrslitum. Það sýnir styrkleika okkar þá og myndi styrkja stöðu íslenskra félaga upp á Evrópukeppnir í framtíðinni. Við viljum líka rétta við okkar leik og bera okkur saman við aðrar þjóðir," segir fyrirliðinn sem segir að úrslitin í fyrri leiknum gefi ekki rétta mynd af muninum á liðunum. "Þetta gaf ekki alveg rétta mynd en þeir eru með frábært lið og jafntefli yrðu góð úrslit. Það er gaman að spila svona leiki og bera okkur saman við aðrar þjóðir og markmiðið hlýtur að vera að sýna að munurinn á liðunum er ekki svona mikill," sagði Matthías. Hann segir að liðið leggi leikinn líklega svipað upp en var þó ekki búinn að fara á fund vegna leiksins hjá Heimi þjálfara. "Það virkaði vel í fyrri hálfleik að beita skyndisóknum og ég held að við munum leggja þetta svipað upp," sagði Matthías Vilhjálmsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×