Innlent

Íslenska gámafélagið og Spölur fyrirtæki ársins

Spölur rekur Hvalfjarðargöng. Spölur og Íslenska gámafélagið eru fyrirtæki ársins.
Spölur rekur Hvalfjarðargöng. Spölur og Íslenska gámafélagið eru fyrirtæki ársins. Mynd/Pjetur
Íslenska gámafélagið og Spölur voru valin Fyrirtæki ársins í könnun VR en niðurstöðurnar voru kynntar í dag. Íslenska gámafélagið vann í hópi stærri fyrirtækja en Spölur í hópi minni fyrirtækja þar sem starfa 49 eða færri starfsmenn. Johan Rönning bætti sig mest á milli ára í hópi stærri fyrirtækja og fær því sæmdarheitið hástökkvari ársins. Í hópi minni fyrirtækja er það Hagvangur sem er hástökkvarinn þetta árið, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá VR.

„Óvissa síðustu mánaða á vinnumarkaði og erfitt efnahagsástand setja mark sitt á niðurstöðurnar en engu að síður eru þær í flestum tilfellum jákvæðari en þær voru árið 2007 sem vekur óneitanlega athygli. Ástæðuna má e.t.v. rekja til breyttra viðhorfa og þess að starfsfólk metur stöðu sína hlutfallslega enn góða þrátt fyrir ótryggt ástand," segir í tilkynningunni.

Þar segir að VR hafi staðið fyrir könnun á Fyrirtæki ársins í rúman áratug og síðustu fimm ár hafi SFR, stéttarfélag starfsmanna hins opinbera, tekið þátt. „Þetta er stærsta vinnumarkaðskönnun á Íslandi og í ár fengu ríflega 30 þúsund starfsmenn á almennum og opinberum vinnumarkaði spurningaeyðublað."

Markmið könnunarinnar er að skapa umræðuvettvang starfsmanna og stjórnenda um vinnustaðinn. Að mati VR veitir hún starfsmönnum tækifæri til að koma skoðunum sínum og athugasemdum á framfæri og skapar þeim grundvöll til að ræða um starfsaðstæður sínar og kjör við sína yfirmenn.

Hæsta mögulega einkunn í Fyrirtæki ársins er 5,00 og fékk Íslenska gámafélagið, sigurvegari stærri fyrirtækja, 4,59 í einkunn. Meðaltal stærri fyrirtækja var 3,98 þetta árið en var 4,02 í fyrra. Í hópi minni fyrirtækja fékk Spölur 4,90 í einkunn en meðaltalið í ár var 4,10 sem er nánast það sama og í fyrra.

Í könnuninni eru þátttakendur beðnir um að leggja mat á átta lykilþætti í sínu starfsumhverfi og eru þeim gefnar einkunnir á bilinu frá einn til fimm. Einkunnir lækka allar á milli ára nema í einum þætti, sveigjanleika í starfi. „Í ljósi erfiðleika á vinnumarkaði kemur það ekki á óvart að einkunnir lækki en það sem vekur athygli er að þær eru í flestum tilfellum ennþá hærri en þær voru árið 2007."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×