Innlent

Nýja sprungan þrengst í einn gíg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá gossvæðinu á Fimmvörðuhálsi sl. föstudag.
Frá gossvæðinu á Fimmvörðuhálsi sl. föstudag. Mynd/Pjetur
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi er nú aðallega bundið við nýja gosstaðinn sem opnaðist í síðustu viku og hefur sprungan þar þrengst í einn gíg. Jarðskjálftinn stóri í gær var grunnt undir Eyjafjallajökli í gosrásinni og vakti spurningar um hvort kvikan væri að reyna að brjóta sér leið upp á nýjum stað.

Gosóróinn helst enn sá sami, að sögn Einars Kjartanssonar, jarðeðlisfræðings á Veðurstofunni, en dregið hefur úr skjálftavirkni. Skjálftinn síðdegis í gær upp á 3,7 stig er sá stærsti sem orðið hefur í þeirri hrinu sem fylgt hefur eldgosinu en hann fannst meðal annars undir Eyjafjöllum, í Fljótshlíð, á Hvolsvelli og í Gunnarsholti.

Upptök skjálftans voru grunnt undir austanverðum Eyjafjallajökli, í gosrásinni á um tveggja kílómetra dýpi þar sem hún tekur krappa beygju í austur að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi, en ef kvikan hefði ekki beygt í upphafi gossins þar hefði hún náð yfirborði nær hábungu Eyjafjallajökuls, og gosið sennilega orðið ofan Steinholtsjökuls.

Skjálftinn í gær vakti spurningar um hvort kvikan væri að reyna að brjóta sér nýja leið upp. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur, sem staddur er á Fimmvörðuhálsi, kvaðst þegar við töluðum við hann í morgun vera að horfa upp á hábungu jökulsins en ekki sjá neitt óeðlilegt og taldi Haraldur ekkert hægt að segja um hvort skjálftinn boðaði frekari tíðindi.

Hann sagði þó ekkert lát á gosinu. Það væri þó lítið í upphaflegu sprungunni, en mestur krafturinn væri á nýja gosstaðnum. Sprungan, sem opnaðist þar fyrir viku, hefði þrengst og væri nú orðinn einn gígur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×