Innlent

Barnaníðingur var rekinn úr Fáfni með „skít og skömm“

Einar „Boom“ Marteinsson.
Einar „Boom“ Marteinsson.

„Hann var rekinn úr Fáfni fyrir tíu árum síðan," segir forseti Hells Angels á Íslandi, Einar „Boom" Marteinsson, en greint var frá því fyrr í dag að starfsmaður meðferðarheimilisins Árbótar í Aðaldal, hefði sagst vera einn af stofnendum Fáfnis.

Fram kom í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystri sem féll í gær að ein stúlkan hafi óttast um líf sitt ef hún segði frá misnotkuninni vegna þess að maðurinn þóttist þekkja liðsmenn Fáfnis. Maðurinn var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að misnota tvær stúlkur á meðferðarheimilinu.

Einar segir að maðurinn hafi ekki hætt í klúbbnum, „hann var rekinn með skít og skömm".

Einar tekur fram að stefna klúbbsins sé skýr hvað þá varðar sem fremja kynferðisbrot, þeir séu ekki velkomnir í félagsskapinn og það sem meira er, þá óska liðsmenn þeim alls hins versta.

„Við höfum engin tengsl við þennan mann og það er fráleitt að halda því fram að við séum að hræða líftóruna úr fórnalömbum kynferðisofbeldis," segir Einar sem er ekki skemmt yfir gjörðum mannsins og tengslum hans við Fáfni.

Aðspurður hversvegna maðurinn hafi verið rekinn úr klúbbnum segir Einar: „Það var vegna óásættanlegrar hegðunar. Og ég legg áherslu á að við höfum ekkert með svona viðbjóð að gera. Okkur finnst að það eigi að skera undan svona aumingjum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×