Íslenski boltinn

Atli til skoðunnar hjá Tromsø - FH búið að samþykkja kaupverð

Ómar Þorgeirsson skrifar
Atli Guðnason.
Atli Guðnason. Mynd/Stefán

Sóknarmaðurinn Atli Guðnason hjá Íslandsmeisturum FH, sem var valinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar síðasta sumar, er á leiðinni út til skoðunnar hjá norska félaginu Tromsø en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag.

Morten Kræmer, yfirmaður knattspyrnumála hjá Tromsø, segir að Tryggvi Guðmundsson, sem lék um tíma með norska félaginu, hafi bent því á Atla.

Að því er fram kemur á heimasíðunni eru FH og Tromsø þegar búin að ná saman um kaupverð og því í raun undir Atla komið hvort af félagaskiptunum verður en Atli fer út á sunnudag.

Hinn 26 ára gamli framherji skoraði ellefu mörk í tuttugu deildarleikjum með Hafnarfjarðarliðinu síðasta sumar en hann hefur einnig leikið með Fjölni og HK. Þá lék Atli sinn fyrsta A-landsleik í lok síðasta árs gegn Íran.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×