Innlent

Síminn lítilsvirðir ekki þjóðlegar íslenskar afurðir

Leikarinn Ólafur Darri Ólafsson pantar sér pizzu í stað þess að borða þorramat í auglýsingu Símans.
Leikarinn Ólafur Darri Ólafsson pantar sér pizzu í stað þess að borða þorramat í auglýsingu Símans.
Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir fyrirtækið ekki lítilvirða þjóðlegar íslenskar afurðir í auglýsingum sínum líkt og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hélt fram í ræðu á Búnaðarþingi í dag.

„Ég get ekki neitað því að mér þykir beinlínis sorglegt að fylgjast með framgöngu okkar fyrrum ágæta fyrirtækis Símans," sagði Jón þegar Búnaðarþing var sett í Bændahöllinni í dag.

„Nú ríður húsum sjónvarpsauglýsing, einhverskonar húmorslaus 2007 útgáfa í anda útrásarvíkinga þar sem að gert er lítið úr hefðbundnum íslenskum þjóðlegum afurðum. Nokkrir karlmenn, í lopapeysum þó, eru látnir fúlsa við íslenskum þorramat eins og hvert annað ómeti sé að ræða," sagði ráðherrann og bætti við að hann teldi að auglýsingin bætti ekki ímynd Símans.

Margrét segir að Íslendingar séu þekktir fyrir að hafa húmor fyrir sjálfum okkur og í auglýsingunni sé Síminn einfaldlega að sýna ýktar aðstæður sem ættu sér seint stað í raunveruleikanum. Auglýsingunum sé ætlað að beina sjónum fólks að því hvaða möguleika það hefur með því að nýta sér 3G þjónustu Símans þar sem slíkt hafi ekki verið mögulegt áður.

„Ég tel raunar að líta megi á auglýsinguna sem létta ádeilu á þá sem fúlsa við gamla góða íslenska þorramatnum og kjósa að panta sér pizzu út í óbyggðum. Mér finnst reyndar aðal töffarinn í auglýsingunni vera sá sem útbýr Þorrabakkann af mikilli natni," segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×