Íslenski boltinn

Þorvaldur: Það er alltaf gott að sigra

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þorvaldur Örlyggson, þjálfari Fram, var ánægður með stigin þrjú gegn ÍBV í kvöld. „Það er alltaf gott að sigra en það er óþarfi að leggja of mikið á byrjunina og vonandi að við getum haldið þessu áfram í næsta leik," sagði Þorvaldur.

Mikið var af feilsendingum og slöppum skottilraunum í kvöld. „Ég veit ekki hvað menn eru alltaf að tala um vorbrag, menn eru búnir að vera að spila fótbolta í allan vetur og maður er búinn að sjá mismunandi leiki í Egilshöll og annarstaðar. Mér fannst leikurinn fínn í dag, menn voru að hreyfa sig vel þótt menn séu auðvitað þungir enda eru menn að spila fyrsta leik á þungu grasi," sagði Þorvaldur.

Tómas Leifsson skoraði í sínum fyrsta leik og var afar sprækur á hægri kantinum. „Tómas skoraði virkilega fallegt mark og gaman að sjá hann lifna við, gefur honum meira sjálfstraust og liðinu enda átti hann góða spretti í dag og ætlumst við þess að sjá meira af þessu frá honum."

Framarar fengu algjöra óskabyrjun með marki á fjórðu mínútu og bökkuðu eilítið eftir það og beittu skyndisóknum. ,,Eftir fyrsta markið fannst mér við detta svolítið mikið niður og vera dálítið smeikir sem er alltaf hættulegt gegn ÍBV, þeir eru með klóka leikmenn sem geta snúið leikjum á augnabliki. Annað markið var því mjög mikilvægt en að sama skapi var maður aldrei öruggur, eitt mark inn og allt getur gerst á blautum velli eins og í kvöld," sagði Þorvaldur.

Frömurum var spáð fimmta sæti af fjölmiðlum, hugar Þorvaldur eitthvað að því? „Það er gömul lumma að maður tekur alltaf einn leik fyrir í einu en við hugsum ekki hvort við ætlum að enda hærra eða lægra en spáin segir. Við ætlum bara að mæta í næsta leik og gera okkar besta. Ég spila ekki fótbolta eftir spánni."

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×