Fótbolti

Egyptaland og Gana mætast í úrslitaleik Afríkukeppninnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hani Said og Hosni Abd Rabbou fagna sigri Egyptalands.
Hani Said og Hosni Abd Rabbou fagna sigri Egyptalands. Mynd/AP

Í gær var ljóst að það verða Egyptaland og Gana sem spila til úrslita í Afríkukeppni landsliða í fótbolta á sunnudaginn en Alsír og Nígería þurfa að sætta sig við að spila um þriðja sætið á morgun.

Egyptar geta unnið Afríkukeppnina þriðja skiptið í röð eftir að þeir hefndu fyrir ófarirnar í undankeppni HM á móti Alsíringum með 4-0 sigri í undanúrslitaleik liðanna í gær.

Alsír vann Egyptaland 1-0 í umspilsleik um sæti á HM og verður þar í riðli með Englandi, Bandaríkjunum og Slóveníu.

Alsíringar enduðu aðeins átta inn á vellinum í þessum skrautlega leik. Hosni Abd Rabou, Mohamed Zidan, Mohamed Abdel Shafy og Mohamed Gedo skoruðu mörk Egypta í leiknum.

Asamoah Gyan tryggði Gana 1-0 sigur á Nígeríu í hinum undanúrslitaleiknum en þetta er í fyrsta sinn í átján ár sem Ganamenn komast alla leið í úrslitaleik keppninnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×