Íslenski boltinn

Tryggvi Guðmunds: Ég hef svo sem tekið nokkur víti hér áður

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Tryggvi hér á ferðinni á sínum gamla heimavelli í kvöld. Mynd/Anton
Tryggvi hér á ferðinni á sínum gamla heimavelli í kvöld. Mynd/Anton
„Ég er ótrúlega stoltur, flott eyjalið sem mætir hér í dag og komum væntanlega öllum á óvart með því að stilla upp í 4-4-2 og blússandi sóknarleik. Við settum háa pressu á þá og það er eitthvað sem FH-ingar eru ekki vanir hér í Kaplakrika," sagði Tryggvi Guðmundsson, leikmaður ÍBV, eftir frábæran sigur gegn FH í kvöld.

Tryggvi skoraði gegn sínum gömlu félögum í kvöld en hann skoraði þriðja mark ÍBV úr vítaspyrnu eftir um hálftímaleik.

„Að sjálfsögðu ætlaði ég alltaf á punktinn. Ég er vítaskytta liðsins og er reynslumesti leikmaður liðsins svo að ég á hugsanlega að vera þessi rólegasti og hef gert þetta áður. Ég hef svo sem tekið nokkur víti hér áður, reyndar bara fyrir annað lið," sagði Tryggvi og brosti.

„Ég ætla nú ekkert að gleyma mér í gleðinni en eins og við spiluðum í dag þá er þetta flott lið en þetta bara einn leikur af mörgum. Við erum búnir að vera góðir í síðustu leikjum, sóttum eitt stig á Vodafone-vellinum og þrjú stig hér í Krikanum. Þetta eru nú ekkert vitlaus lið, Valur og FH á útivelli þannig að þetta er allt í rétta átt hjá okkur og vonandi höldum við þessu áfram," sagði Tryggvi ánægður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×